Í dag var opnaður vefurinn skattur.is en tilgangurinn með því að taka í notkun nýjan vef skattyfirvalda er tvíþættur: að auðvelda gjaldendum að skila skattframtölum og að skerpa á verkaskiptingu skattstjóra og ríkisskattstjóra.
Á undanförnum árum hafa framtalsskil almennings til skattstjóra verið í gegnum vef ríkisskattstjóra. Ábendingar hafa borist um að þeir sem eingöngu hafa ætlað að skila framtali sínu hafi lent í erfiðleikum með það, þar sem vefur ríkisskattstjóra er afar yfirgripsmikill.
Af þessum ástæðum hófst vinna hjá ríkisskattstjóraembættinu í byrjun þessa árs við að einfalda framtalsskil með rafrænum hætti og um leið að beina þeim beint til skattstjóra að því er fram kom á fundi með blaðamönnum í dag.
Hinn nýi vefur er ætlaður fyrir almenning til að eiga samskipti við sinn skattstjóra, fylla út rafrænt eyðublöð, fletta upp í leiðbeiningum og skila skattframtölum. Margs konar aðra þjónustu er einnig að finna á www.skattur.is svo sem greiðslustöðu við innheimtumann, skuldastöðu við LÍN o.fl. aðila. Á næstunni mun vefurinn einnig verða notaður til að sækja um skattkort með rafrænum hætti og ýmsa aðra þjónustu.
Skattayfirlit úr vefbönkum
Um 10-20% þeirra upplýsinga sem nota þarf við framtalsgerð koma úr bönkum. Þessar upplýsingar hafa ekki fengist frá bönkunum til áritunar beint á framtöl. Skattayfirvöld, bankar og sparisjóðir eru hins vegar sammála um að mikilvægi þess að auðvelda fólki að telja þessar upplýsingar fram. Í fyrra bauð Glitnir, í samvinnu við skattayfirvöld, fyrstur banka upp á flutning gagna af skattayfirliti viðskiptavinar í vefbanka yfir á þjónustusíðu hans hjá skattyfirvöldum. Þaðan gat viðskiptavinur síðan fært upplýsingarnar með einföldum hætti inn á framtalið og þar með sparað innslátt og minnkað villuhættu. Nú stefnir í að allir bankar og sparisjóðir bjóði upp á þessa þjónustu við framtal 2007.