Í dag lækkaði virðisaukaskattur á ýmsum vörutegundum í 7%, þ.á.m. á flestum matvælum. Í gær heimsóttum við verslun Nettó í Mjódd til þess að kanna hvernig gengi að undirbúa virðisaukaskattslækkunina, og auk þess gerðum við óformlega verðkönnun á nokkrum vörutegundum sem við völdum af handahófi. Við heimsóttum verslunina því á nýjan leik í dag og tókum út stöðuna.
Þröstur Karlsson, verslunarstjóri Nettó, segir að það hafi gengið vel að breyta verðum á þeim vörutegundum sem áttu að lækka í dag. Í nótt voru verð keyrð inn í tölvukerfi verslunarinnar, og í dag var verið að ljúka því að setja verðmiða á hillurnar.
Þá sögðust þeir neytendur sem fréttavefurinn ræddi við að þeir ætli fylgjast vel með verðbreytingunum og gera m.a. samanburð á þeim kassakvittunum sem þeir fá í hendurnar nú og þeim sem þeir fengu áður en að verðbreytingin tók gildi.
Sem fyrr segir gerði Fréttavefur Morgunblaðsins óformlega verðkönnun á nokkrum vörutegundum í Nettó í gær og niðurstaðan var sú að verðmerkingar pössuðu hjá viðkomandi vörum, sem voru valdar af handahófi.
Sem dæmi má nefna þá kostaði 130 gramma krukka af Gerber bananamauki fyrir ungbörn 83 kr., en í dag kostar það 79 kr., sem stemmir við lækkun virðisaukaskattsins Þá kostaði tvöfaldur Cheerios pakki 499 kr. í gær en í dag kostar hann 468 kr., sem jafnframt stemmir. Það sama var uppi á teningnum með Toro kjúklingasósu sem við könnuðum. 35 gramma poki kostaði 99 kr. í gær, en hann kostar nú 93 kr. Verðlækkunin hefur því náð til allra þeirra vörutegunda sem við skoðuðum handahófskennt í verslun Nettó í gær.