Fundur Hags í Hafnarfirði í gærkvöldi hvetur Hafnfirðinga til þess að taka þátt í íbúakosningunni þann 31. þessa mánaðar þar sem kosið verður um framtíð álversins í Straumsvík.
Fundurinn skorar jafnframt á íbúa að segja JÁ í kosningunni þar sem framtíð eins stærsta atvinnurekanda í sveitarfélaginu verður ákveðin. „Fundurinn tekur undir öll megin sjónarmið samtakanna Hagur Hafnarfjarðar þar sem settar hafa verið fram áhyggjur um að það fjari undan álverinu verði stækkun ekki samþykkt. Slík staða kemur þegar í stað niður á þjónustufyrirtækjum og birgjum álversins. Um er að ræða ríflega 800 fyrirtæki á landinu öllu og yfir hundrað í Hafnarfirði. Fimmta hvert fyrirtæki í Hafnarfirði hefur lifibrauð sitt alfarið eða að hluta af viðskiptum við álverið í Straumsvík.
Fundurinn telur að þær mengunarvarnir sem settar verða upp í álverinu tryggi að allar reglugerðir sem lúta að mengun verði virtar til hins ítrasta.
Fundurinn kallar eftir svörum frá kjörnum fulltrúum og ábyrgri upplýsingagjöf til íbúa sem geri grein fyrir mikilvægi fyrirtækisins í heildarsamhengi fyrir bæjarfélagið.
Að lokum hvetur fundurinn fjölmiðla til að sýna sanngirni og tryggja ólíkum sjónarmiðum pláss og tíma í þeirri umræðu sem framundan er," að því er segir í ályktun fundar Hags í Hafnarfirði.