Skýrslutöku yfir Stefáni Hilmarssyni, sem starfaði sem endurskoðandi hjá Baugi frá árinu 1998 til 2002, lauk nú rétt í þessu. Sagði Stefán við skýrslutöku að ársreikningar Baugs sem hann hafi áritað gæfu glögga mynd af ársreikningi Baugs.
Í morgun kom fram í máli Stefáns að í aðeins eitt skipti, af alls 10 yfirheyrslum, hafi hann fengið tækifæri til þess að koma sínum skýringum á framfæri við löggiltan endurskoðanda. Í hin skiptin hafi hann rætt við lögreglumenn, í einu tilfelli fíkniefnalögreglumann, sem hefðu ekki áttað sig á þeim hugtökum sem hann var að skýra frá.
Sigurður Tómas Magnússon, settur ríkissaksóknari, segir að þarna hafi Stefán átt við Arnar Jensson, fyrrverandi aðstoðaryfirlögregluþjón í efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra, sem hafi einu sinni starfað í fíkniefnalögreglunni. Arnar hafi aflað sér mikillar þekkingar á þessu sviði og því ætti ásökun Stefáns ekki rök að styðjast.