Í rannsóknarflugi á Grænlandshafi í gær var safnað gögnum um ástand lofthjúpsins í tengslum við þróun djúprar lægðar sem stjórnar veðri á landinu næstu daga. Þverskurðir voru teknir af veðrahvolfinu með því að sleppa svokölluðum sondum, og var eitt af því sem tekið var eftir það að vindstrengir norðvestur af landinu voru sterkari en líkanareikningar höfðu gefið til kynna.
Í dag verður aftur flogið yfir svæðið milli Vestfjarða og Grænlands verður flogið að hluta til í 30 metra hæð yfir sjó, til að mæla orkuflæði frá hlýjum sjó upp í kalt loft, en samkvæmt útreikningum gæti það flæði náð allt að 700 wöttum á fermetra sjávaryfirborðs.
Verður annars vegar athugað hve vel þessum úreikningum ber saman við mælingar og hins vegar könnuð áhrif orkuflæðisins á andrúmsloftið.
Rannsóknarfluginu verður svo haldið áfram á morgun, en þá verður líklega flogið sudvestur fyrir landið til að rannsaka lægðina sem áður var lýst, en hún verður að öllum líkindum dýpst á laugardag. Athyglin beinist einkum að því hvernig fjalllendi Grænlands hefur áhrif á staðsetningu og lífsferil lægðarinnar.