Kona var flutt með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Landspítalann háskólasjúkrahús nú á sjötta tímanum eftir harðan árekstur tveggja bíla á Suðurlandsvegi rétt austan við Hvolsvöll. Konan er beinbrotin en ekki jafn alvarlega slösuð og í fyrstu var talið og er ekki í lífshættu.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Hvolsvelli virðist sem fólksbíl hafi verið beygt fyrir sjúkrabíl. Sjúklingur var í sjúkrabílnum en honum var ekki ekið með forgangsljós á.
Tveir sjúkraflutningamenn voru í sjúkrabílnum og slasaðist annar þeirra lítilsháttar á síðu, en hann var aftur í sjúkrabifreiðinni hjá sjúklingnum þegar óhappið varð. Aðra í bílnum sakaði ekki.
Tildrög slyssins voru þau að fólksbifreiðinni var skyndilega sveigt yfir á öfugan vegarhelming skömmu áður en bifreiðarnar mættust en ökumaður sjúkrabifreiðarinnar reyndi að sveigja út af veginum um leið og hann sá hvað í stefndi. Þrátt fyrir það rákust bifreiðarnar saman.