Ásgrímur sleginn á 8,9 milljónir

Af Rangárvöllum – Þríhyrningur eftir Ásgrím Jónsson.
Af Rangárvöllum – Þríhyrningur eftir Ásgrím Jónsson.

Vatnslitamynd Ásgríms Jónssonar, Af Rangárvöllum – Þríhyrningur, sem máluð var 1911, var dýrasta myndlistarverkið á listaverkauppboði Gallerís Foldar í gærkvöldi, en það var slegið á 8,9 milljónir króna, sem er nærfellt fjórfalt matsverð myndarinnar.

Með uppboðs- og höfundarréttargjöldum verður heildarverð myndarinnar um 10,2 milljónir króna.

Tryggvi Páll Friðriksson, listmunasali hjá Galleríi Fold, sagði að uppboðið hefði gengið vel og gott verð fengist fyrir flest verkin. Verð á verkum Ásgríms hefði farið hækkandi undanfarið. „Ætli þetta sé ekki bara staðfesting á því að hann hafi verið besti vatnslitamálari Norðurlanda eins og margir töldu á þessum tíma," sagði Tryggvi Páll.

Alls voru 134 verk af ýmsum toga boðin upp á listaverkauppboðinu, þ.ám. verk eftir marga þekktustu listamenn þjóðarinnar auk Ásgríms eins og Jóhannes S. Kjarval, Nínu Tryggvadóttur, Svavar Guðnason, Jón Stefánsson, Þórarin B. Þorláksson, Gunnlaug Blöndal og Þorvald Skúlason, svo einhverjir séu nefndir. Verk eftir Þorvald, Stúlkur með bolta frá 1941, var næstdýrasta verkið á uppboðinu. Það var slegið á 6,5 milljónir króna, sem er tæplega tvöfalt matsverð, en heildarverð með álögðum gjöldum er um 7,4 milljónir króna. Þá fór verk eftir Gunnlaug Blöndal, Reykjavíkurhöfn frá 1943, á 4,5 milljónir króna og verk eftir Einar Jónsson frá Fossi, Oddeyrin 1906, sem máluð var 1914, á 900 þúsund, sem er rúmlega þrefalt matsverð myndarinnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert