Steik í stað samloku

Ekta dönsk purusteik.
Ekta dönsk purusteik. mbl.is/Árni Sæberg

Lækkun á matarverði sem varð um síðustu mánaðarmót mun væntanlega leiða til þess að neytendur kaupi fínni mat en áður. Þannig er líklegt að velta í dagvöruverslun minnki ekki þó virðisaukaskattur og vörugjöld hafi verið lækkuð eða lögð af, heldur aukist frekar. Neytendur munu í staðinn hafa efni á að kaupa mat sem þeir völdu sjaldan áður vegna hás verðs og jafnvel fara í auknum mæli á veitingahús, þetta segir í grein sem Emil B. Karlsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs verslunarinnar, hefur skrifað.

Emil segir frá því að honum hafi nýlega borist fyrirspurn um hvort líklegt væri að neytendur myndu í auknum mæli fara að kaupa tískufatnað þegar matarverð lækkar og ættu fleiri krónur eftir í heimilisbuddunni. Eins mætti spyrja hvort fólk fari að ferðast meira, fari meira á öldurhús eða leggi fyrir meiri peninga inn á banka þegar matarverð lækkar? „Sjálfsagt gerist allt þetta þegar ráðstöfunartekjur aukast. En svarið við spurningunni er að ýmislegt bendi til þess að áhrif matarverðslækkunarinnar verði einkum þau að við kaupum frekar mat sem við spöruðum við okkur fyrir hækkun vegna þess að hann væri dýr,“ segir Emil.

Staðkvæmdaráhrif

Hann segir allar verðbreytingar á nauðsynjavöru hafa áhrif á eftirspurn og um leið á kaupmátt fólks. Verðbreytingar valdi svokölluðum staðkvæmdaráhrifum, sem felist í því að rekja megi breytingu á eftirspurn til þess að verðhlutföll hafi breyst. „Þekkt er að þegar ein matartegund hækkar í verði velur fólk að kaupa aðra ódýrari vöru í staðinn og þannig koma staðkvæmdaráhrifin í ljós. Á sama hátt má ætla að þegar verð lækkar á „fínni” matartegundum og verður á sambærilegu verði og vörur sem algengast var að við keyptum áður, þá færum við okkur yfir í fínu vöruna,“ segir Emil.

Hann segir að dæmi um þetta sé þegar tollar á grænmeti voru lækkaðir og felldir niður árið 2002 og matvælaverð lækkaði, þá hafi sami vöxtur í veltu dagvöruverslana haldið áfram. Neytendur hafi brugðist þannig við að þeir keyptu meira grænmeti, nýjar tegundir og neysla á ávöxtum tók einnig kipp uppávið. Tollalækkunin olli því að neyslan jókst á ávöxtum og grænmeti.

Efnaðir verja sama hlutfalli í mat

Annað sem styður þá tilgátu að kauphegðun neytenda breytist í þá veru að þeir færi sig meira í átt til sælkeramats með lækkun á matarverði er sú staðreynd að þeir sem eru efnaðir verja hlutfallslega jafnmiklu af ráðstöfunarfé sínu til matarkaupa og þeir sem minna hafa. Samkvæmt því ver fólk fleiri krónum til matarkaupa eftir því sem ráðstöfunartekjurnar verða meiri.

Fleiri út að borða

Virðisaukaskattslækkunin hefur töluverð áhrif á verð á veitingahúsum. Líklegt er því að lægri virðisaukaskattur og afnám vörugjalda leiði til þess að fólk fari í auknum mæli út að borða. Í stað þess að panta samloku verði steikin fyrir valinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert