Stjórnarandstaðan býðst til að styðja stjórnarskrárbreytingu

Guðjón A. Kristjánsson, Össur Skarphéðinsson og Steingrímur J. Sigfússon á …
Guðjón A. Kristjánsson, Össur Skarphéðinsson og Steingrímur J. Sigfússon á blaðamannafundi í ríkisstjórnarherberginu svonefnda í Alþingishúsinu í dag. mbl.is/RAX

Stjórnarandstöðuflokkarnir þrír tilkynntu á blaðamannafundi í dag, að þeir væru tilbúnir til að greiða fyrir því á Alþingi í vor, að ákvæði um þjóðareign á náttúruauðlindum, sem ekki eru háðar einkaeignarrétti, verði tekið upp í stjórnarskrá. Hafa þingflokkarnir samþykkt, að líta á þetta sem forgangsmál á vorþingi og bjóðast til að lengja þingið ef þörf krefur.

Össur Skarphéðinsson, þingflokksformaður Samfylkingar, vildi ekkert segja um það hvort frumvarp yrði lagt fram í kjölfarið en sagði að með þessu væri stjórnarandstaðan að bjóða ríkisstjórninni upp í dans og að boltinn væri væri hjá stjórnarflokkunum.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, sagði á blaðamannafundinum, að skynsamlegt væri að tengja þessar breytingar við hliðstæð umhverfisverndarákvæði, sem tekin hafa verið inn í stjórnarskrár í Noregi og Finnlandi. Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, sagði þó að flokkurinn vildi fyrst og fremst ganga frá ákvæði um að auðlindir sjávar séu sameign þjóðarinnar.

Í tilkynningu, sem lögð var fram á fundinum, segir að það sé sameiginlegt mat þingflokka stjórnarandstöðunnar, að sá efniviður og tillögugerð, sem fyrir liggi í áliti auðlindanefndar frá árinu 2000 og í tillögum vinnuhóps stjórnarskrárnefndar um auðlinda-, umhverfis- og mannréttindamál, myndi fullnægjandi grundvöll til að ljúka málinu.

Fram kom á fundinum, að í ljósi þess að meirihluti sé nú á Alþingi fyrir þessum breytingum, í ljósi yfirlýsinga ráðherra Framsóknarflokksins undanfarið, væri óhjákvæmilegt að freista þess að koma þeim á.

Sögðu fulltrúar stjórnarandstöðunnar, sem jafnframt hafa verið fulltrúar hennar í stjórnarskrárnefnd, að í raun væri hægt að setja inn í stjórnarskrána ákvæði með því orðalagi sem notað er í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem stendur, „ákvæði um að auðlindir sjávar séu sameign íslensku þjóðarinnar verði bundið í stjórnarskrá".

Þá tóku fulltrúar stjórnarandstöðunnar fram að þar sem mikilvægt væri að ljúka þessum breytingum væri mögulegt að gera það með svo einföldum hætti ef vilji væri fyrir hendi, án þess að tilgreint verði frekar um umhverfisverndarákvæði eða aðrar auðlindir.

Þremenningarnir voru sammála um að yfirlýsingar undanfarinna daga bæru vott um að kosningar væru í nánd, sagði Steingrímur að Framsóknarflokkurinn væri nú búinn að vera í ríkisstjórn í um 4.300 daga og tæki málið upp nú þegar 75 dagar væru eftir af kjörtímabilinu. Því væri flokkurinn augljóslega að taka hamskiptum fyrir kosningar nú eins og oft áður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert