Úrvinnslugjald lækkaði á nokkrum vöruflokkum um mánaðaótin. Þannig lækkaði úrvinnslugjald um 25% á hjólbarða, 30% á pappa, 70% á plast, 26% á prentliti og um 10% á smurolíu.
Samkvæmt upplýsingum frá Úrvinnslusjóði er lækkunin tilkomin vegna ýmissa þátta. Meira hefur verið flutt inn af hjólbörðum og smurolíu en gert var ráð fyrir í áætlunum Úrvinnslusjóðs við álagningu gjaldsins. Úrvinnslugjald var lagt á pappa, pappír og plast í upphafi ársins 2006 og hefur söfnunin farið hægar af stað en áætlað var. Þá hefur dregið úr kostnaði við förgun prentlita.
Úrvinnslugjaldinu er ætlað að standa undir söfnun, flutningi, meðhöndlun, endurnýtingu og endurvinnslu úrgangs eða viðeigandi förgun hans. Úrvinnslusjóður semur við verktaka um framkvæmdina. Nú þegar er lagt úrvinnslugjald á spilliefni, bíla, hjólbarða, umbúðir úr pappa, pappír og plasti, heyrúlluplast og á rafhlöður.
Úrvinnslugjaldið var lagt á í samvinnu stjórnvalda og samtaka atvinnulífsins. Framleiðendur vara og innflytjendur taka á sig framleiðendaábyrgð með greiðslu úrvinnslugjaldsins. Úrvinnslugjaldið er í samræmi við mengunarbótaregluna, sem segir að sá borgi sem mengar.