Geir H. Haarde, forsætisráðherra, segir að enn sé verið að fara yfir ágreining stjórnarflokkanna um hugsanlegt auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Málið kom ekki til umræðu á ríkisstjórnarfundi í dag en Geir sagði eftir fundinn, að unnið væri að því að finna sameiginlegan grundvöll þar sem stjórnarflokkarnir gætu klárað málið.
Geir sagði aðspurður, að ekki stæði annað til af hálfu Sjálfstæðisflokksins, en að efna það sem stæði í stjórnarsáttmálanum. Stjórnarflokkarnir tveir væru hins vegar að ræða málið og reyna að finna hvort það væri einhver flötur á að klára málið núna, þótt tíminn fram til þingloka væri orðinn af skornum skammti.
„Það er venja að stjórnarskrárbreytingar fái ítarlega umfjöllun í þjóðfélaginu, og það er ekki rétt það sem fram hefur komið að slíkt mál sé lagt fram í lok kjörtímabilsins. Það er gjarnan lagt fram á síðasta þingi og er í vinnslu í einhverja mánuði, en síðan er lokaafgreiðslan á því síðasta mál þingsins fyrir lok kjörtímabils, sagði Geir.“
Aðspurður hvort útspil stjórnarandstöðuflokkanna í gær hafi einhverjar breytingar í för með sér sagði Geir að það hafi í sjálfu sér ekki breytt neinu. „Ég veit ekki hvað þeim er öllum mikil alvara í því. Annarsvegar er Framsókn hrósað í einni setningu fyrir staðfestu sína og í hina röndina er hæðst að Framsóknarflokknum fyrir að beita einhverjum trixum. Þannig að maður veit ekki alveg hvað maður á að taka mikið mark á því,“ sagði Geir og bætti því við að hann hefði þá von að stjórnarandstöðunni sé einhver alvara með því sem hún segir. Í minnsta kosti hvað þetta atriði varðar.
Geir ítrekaði að það væri venja að það sé breið samstaða um stjórnarskrárbreytingar, annað væri óvenjulegt. „Í svona máli sem ekki er ætlað að raska grundvelli heillar atvinnugreinar t.d., heldur frekar að styrkja þann grundvöll í sessi, þá er mikilvægt að það sé breið samstaða um málið. Svona texti í stjórnarskrá væri meira í átt við stefnuyfirlýsingu svipað og er í 1. gr. fiskveiðistjórnunarlaganna nú þegar, heldur en ásetning um að gera grundvallarbreytingu á núverandi kerfi. Ef þetta er niðurstaðan sem allir geta sætt sig við þá er ekki stórt vandamál hérna á ferðinni,“ sagði Geir.