Álit nefndar um endurskoðun örorkumats og eflingu starfsendurhæfingar hefur lokið störfum og skilað sameiginlegu áliti og tillögum. Var samþykkt á ríkisstjórnarfundi í dag, að fela fulltrúum þeirra ráðuneyta, sem áttu sæti í nefndinni, að fylgja tillögum nefndarinnar eftir, í samráði við Öryrkjabandalag Íslands, Landssamtök lífeyrissjóða og aðila vinnumarkaðarins, með það fyrir augum að tillögurnar komist til framkvæmda í byrjun árs 2008.
Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði að tillögur nefndarinnar gerðu öryrkjum kleift að gerast jafn öflugir þátttakendur á vinnumarkaði og aðrir þjóðfélagsþegnar án þess að eiga það á hættu, að örorkubætur falli niður.
Fram kemur í skýrslu nefndarinnar, að nefndarmenn séu sammála um að nauðsynlegt sé að gera breytingar á núverandi framkvæmd örorkumats og leggja stóraukna áherslu á endurhæfingarúrræði. Þá þurfi stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins að taka höndum saman um að stórefla fyrirbyggjandi aðgerðir sem til lengri tíma litið komi í veg fyrir ótímabæra skerðingu starfsorku.
Gert er ráð fyrir að ríkissjóður, lífeyrissjóðir og aðilar vinnumarkaðarins komi sameiginlega að fjármögnun þessara aðgerða sem hafi það að markmiði að sem flestir verði aftur virkir á vinnumarkaði.
Nefndin leggur m.a. til að gerðar verði breytingar á skilgreiningu á örorku og rétti til örorkulífeyris og viðmiðanir um örorkumat í almannatryggingakerfinu og lífeyrissjóðakerfinu verði samræmdar.
Nefndin var skipuð í framhaldi af yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 15. nóvember 2005, til að greiða fyrir samkomulagi Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins um áframhaldandi gildi kjarasamninga, þar sem ríkisstjórnin lýsti sig reiðubúna til samstarfs um leiðir til að draga úr vaxandi örorkubyrði lífeyrissjóða og jafna stöðuna á milli einstakra sjóða.
Nefndinni var falið að gera tillögur um samræmingu á viðmiðunum til örorkumats í almannatryggingakerfinu og lífeyrissjóðakerfinu þar sem fyrst og fremst verði horft til getu einstaklinga til að afla sér tekna. Ennfremur var nefndinni falið að gera tillögur um leiðir til að efla starfsendurhæfingu í því skyni að hjálpa einstaklingum sem af einhverjum ástæðum hafa ekki fest rætur á vinnumarkaði vegna örorku.