Það er óveður og hálka á Holtavörðuheiði og ekkert ferðaveður fyrir smærri bíla segir í tilkynningu frá Vegagerð ríkisins. Á Vestfjörðum er vonskuveður, ófært er um Óshlíð, stórhríð er á Gemlufallsheiði og til Suðureyrar, þungfært og óveður er á leið til Súðavíkur.
Á Steingrímsfjarðarheiði er snjóþekja og stórhríð, vegna vonskuveðurs er búist við að heiðin verði ófær fljótlega. Klettsháls er orðin ófær. Vegagerðin biður vegfarendur um að kynna sér færð og ástand vega áður en lagt er í ferðalög á Vestfjörðum.