Bjarni Ármannsson ber vitni í Baugsmálinu

Bjarni Ármannsson, forstjóri Glitnis, var spurður um samskipti Íslandsbanka og FBA við Baug, þegar hann bar vitni í Baugsmálinu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Settur saksóknari, Siguður Tómas Magnússon, spurði Bjarna í um hálfa klukkustund, og snerust spurningarnar mikið um tilurð A. Holding, sem var, eins og Bjarni greindi frá, stofnað til að kaupa 20% hlutafjár í Arcadia. Um hvernig það kom til sagði Bjarni að Jón Ásgeir Jóhannesson hefði talið Arcadia vanmetið félag sem væri áhugaverður fjárfestingarkostur.

Sigurður Tómas spurði Bjarna út í hlutafjárútboð í Baugi í desember 2000, og staðfesti Bjarni að Íslandsbanki, sem hann var þá yfirmaður í, hefði séð um það útboð.

Þá bar saksóknari undir Bjarna skjöl er hann sagði að hefðu fundist við húsleit hjá Baugi og spurði hvort Bjarni þau hefðu komið frá FBA, þar sem Bjarni var áður yfirmaður, en Bjarni kvaðst ekkert kannast við skjölin. Hann sagðist heldur ekki kannast við að Baugur hefði innheimt ógreitt hlutafé á hendur fimm aðilum, þ.á m. Gaumi og Fjárfari.

Einnig spurði saksóknari um tengsl Íslandsbanka og Talentu Internet, og hvað það síðarnefnda hefði nákvæmlega verið og hver hefði stjórnað því. Þá spurði saksóknari og um kaup bankans á hlut í Baugi net. Um þau sagðist Bjarni ekki muna neitt nákvæmlega, en þau viðskipti hefðu endað illa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert