Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í 18 mánaða fangelsi fyrir að hafa samræði við konu gegn vilja hennar, en maðurinn var talinn hafa notfært sér það, að konan gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga. Maðurinn var dæmdur til að greiða konunni 800 þúsund krónur í bætur.
Fram kemur í dómnum, að maðurinn neitaði sök og sagðist hafa haft samfarir við konuna með fullum vilja hennar og hefði hún verið glaðvakandi meðan á þeim stóð. Þá sagði maðurinn að félagi sinn, sem einnig var viðstaddur í íbúðinni, hefði verið að kela við konuna á meðan. Sá maður sagðist upphaflega ekki muna neitt eftir atburðum og vissi ekki til þess að hann hefði látið vel að konunni. Það sama sagði konan.
Í niðurstöðu dómsins segir, að framburður vitnisins hafi tekið miklum breytingum eftir því sem á skýrslutökuna leið og orðið sífellt óljósari. Sé það mat dómsins að framburður vitnisins um aðdraganda kynmakanna sé mjög ótrúverðugur. Þá hafi framburður sakborningsins ekki verið samhljóða fyrir lögreglu og fyrir dómi um aðdraganda kynmakanna og ekki átt sér samhljóm í framburði vitnisins nema að því leyti sem vitnið breytti framburði sínum ítrekað við yfirheyrslu fyrir dómi. Þá sé ljóst af framburði ákærða, að hann og vitnið ræddu saman um framburð þeirra beggja, kvöldið áður en þeir gáfu skýrslu fyrir dómi. Allt framangreint varpi rýrð á trúverðugleika framburðar sakborningsins.
Að mati dómsins hafi framburður konunnar á hinn bóginn skýr, greinargóður og borinn fram af einlægni. Frásögn hennar hafi verið lágstemmd og laus við ýkjur og það renni stoðum undir framburð hennar, að hún hafi ávallt sagt frá atburðum á sama veg.
Segir loks að þegar litið sé til trúverðugs framburðar konunnar, viðbragða hennar, ótrúverðugs framburðar ákærða, andlegrar vanlíðanar konunnar í kjölfar háttsemi ákærða og framlagðrar matsgerðar um ölvunarástand hennar sé að mati dómsins hafið yfir skynsamlegan vafa að maðurinn hafi notfært sér að konan gat ekki spornað við verknaði hans sökum ölvunar og svefndrunga og haft samræði við hana gegn hennar vilja.