Leiddist búðarferðirnar og fór heim

Drengur á sjötta aldursári var síðdegis í gær á ferð með móður sinni í Reykjavík og þurfti móðirin m.a. að bregða sér í búð til að kaupa í matinn. Á meðan átti drengurinn að bíða í bíl þeirra mæðgina.

Að sögn lögreglunnar virðist drengnum eitthvað hafa leiðst biðin því hann var horfinn þegar móðirin sneri aftur í bílinn. Lögreglan var þá kvödd til og fór hún að svipast um eftir drengnum. Hann var hvergi sjáanlegur og var þá farið að heimili hans, talsverðan spöl. Þar var drengurinn í makindum og urðu að vonum fagnaðarfundir þegar móðirin kom heim aftur.

Lögreglan segir, að sagt sé að karlmenn séu lítið gefnir fyrir búðaráp og drengurinn sé greinilega engin undantekning.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert