„Ég get staðfest að þetta er til umræðu,” sagði Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, þegar hann var spurður hvort til stæði að flýta brúargerð á Ölfusá norðan við Selfoss. Í samgönguáætlun sem nú liggur fyrir Alþingi er gert ráð fyrir að byrja á verkinu 2015 en nú er rætt um að hefja verkið jafnvel strax á fyrsta tímabili 2007 - 2010 og ljúka því fyrir 2015.
Um er að ræða vegalagningu norðan við Selfoss og tengingu við Suðurlandsveg í Hraungerðishreppi. Alþingi lýkur störfum sínum eftir fáa daga, en eitt af þeim málum sem ljúka þarf áður er afgreiðsla samgönguáætlunar.