Vill að áhrif hvalveiða á ímynd Íslands verði skoðuð

Utanríkisráðherra vill láta skoða áhrif hvalveiða á ímynd Íslands.
Utanríkisráðherra vill láta skoða áhrif hvalveiða á ímynd Íslands. mbl.is/Ómar

Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, sagði á ársfundi Útflutningsráðs í dag, að hún telji rétt, að áður en ákvarðanir verði teknar um framhald hvalveiða, sérstaklega á stórhvelum, verði áhrif þeirra á ímynd Íslands og íslenska viðskiptahagsmuni skoðuð vandlega. Jafnframt verði náið samráð haft við atvinnulífið um næstu skref í þessum efnum.

Valgerður vísaði til þess, að raddir hafi heyrst að undanförnu úr viðskiptalífinu um að hvalveiðar Íslendinga kynnu að skaða ímynd Íslands.

„Ég hef áður sagt að ég telji að stjórnvöld verði að hlusta gaumgæfilega á varnaðarorð af þessu tagi. Þess vegna tel ég rétt að áður en ákvarðanir verði teknar um framhald hvalveiða, sérstaklega á stórhvelum, verði áhrif þeirra á ímynd Íslands og íslenska viðskiptahagsmuni skoðuð vandlega. Jafnframt verði náið samráð haft við atvinnulífið um næstu skref í þessum efnum. Góð ímynd Íslands er ekki einkamál þeirra fyrirtækja sem eru í útrás eða sinna ferðaþjónustu, heldur sameiginlegt hagsmunamál allrar þjóðarinnar. Ég er raunar sannfærð um að það muni ráða miklu um lífskjör okkar í framtíðinni hvort okkur muni auðnast að skapa Íslandi sterka og jákvæða ímynd,” sagði Valgerður í ávarpi sínu.

Viðurkennir að hvalveiðar skaði ímynd landsins
Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, segir, að utanríkisráðherra geti ekki farið nær því að viðurkenna, að hvalveiðar hafi verið skaða ímynd Íslands á alþjóðavettvangi. „En ég lít á þetta sem viðurkenningu utanríkisþjónustunnar á því, að stórhvelaveiðar hafi verið mistök. Úr þeim verður ekki bætt nema að hætta veiðum," sagði Árni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert