Dæmdur í 44 mánaða fangelsi fyrir fíkniefnasmygl

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness.

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt 27 ára gamlan karlmann, Sigurð Fannar Þórsson, í 44 mánaða fangelsi fyrir að flytja rúmlega 2,9 kíló af kókaíni til landsins. Maðurinn var handtekinn á Keflavíkurflugvelli eftir að kókaínið fannst falið í tösku hans og hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan. Hann játaði sök og sagðist hafa verið fenginn til að sækja efnið en ekki hafa komið að skipulagningu smyglsins.

Sigurður sagði við yfirheyrslur, að hann vildi ekki gefa upp nöfn þeirra manna, sem fengu hann til ferðarinnar, af ótta um að það myndi bitna illa á honum eða vandamönnum hans. Ástæðan væri sú, að hann hafði undanfarin 5 ár neytt kannabisefna í talsverðu magni og einnig öðru hvoru neytt kókaíns og hafi laun hans að mestu farið til kaupa á þessum efnum. Þá hafi hann stofnað til skulda vegna fíkniefnakaupa og taldi hann að hann hafi fengið lánað til kaupanna um það bil 300.000 krónur hjá fíkniefnasölunum en skuldin var engu að síður komin í um 1 milljón króna sl. haust.

Sigurður sagðist hafa borgað inn á skuldina og einnig reynt að flýja til Svíþjóðar en ákveðið að koma aftur til Íslands og reyna að semja um skuld sína. Þá hafi honum verið gefnir úrslitakostir um að fara til Danmerkur og sækja fíkniefni en hótað ofbeldi ella. Sagði hann að menn hafi misþyrmt honum með því að berja hann, binda hann á höndum og fótum, setja hann í skott á bifreið og aka með hann eitthvað, sennilega inn í bílskúr eða iðnaðarhúsnæði, þar sem hann hafi verið látinn dúsa í skottinu um nótt. Eftir það hafi verið farið með hann á einhvern stað, þar sem bara var hraun og mosi og þar hafi hann verið rifinn upp úr skottinu, verið laminn og honum verið hótað. Einn mannanna, sem stóð að þessu hafi lagst ofan á hann, borið hníf að hálsi hans og lýst því yfir, að þeir sem hann skuldaði myndu senda barnaperra á son hans, ef hann færi ekki í þessa ferð. Hann hafi þá ekki getað annað en játað því að fara ferðina.

Sigurður sagði þessa menn einnig hafa komið í tvö eða þrjú skipti heim til hans. Í fyrsta skiptið hafi hann náð að lúskra á þeim þegar þeir réðust að honum, en í síðara skiptið hafi þeir verið 3-4 og hann þá ekkert getað gert, bara verið laminn.

Maðurinn sagðist hafa farið í ferðina til Kaupmannnahafnar eins og fyrir hann var lagt. Fyrst fór hann til Gautaborgar og gisti þar eina nótt og svo hefði hann fengið sér herbergi á einhverju hóteli í Istedgade í nokkra daga. Hann fór á veitingastað og hitti þar mann, sem afhenti honum ferðatösku. Sigurður fór með ferðatöskuna á hótelherbergi sitt, þar sem hann setti sinn farangur í hana og geymdi hana þar til hann fór til Íslands. Hann flaug síða til Keflavíkur og fór með töskuna um græna hliðið í flugstöð Leifs Eiríkssonar en var stöðvaður af tollvörðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert