Formenn stjórnarflokka flytja frumvarp um stjórnarskrárbreytingu

Formenn og varaformenn stjórnarflokkanna kynntu niðurstöðu í auðlindaákvæðismálinu í dag.
Formenn og varaformenn stjórnarflokkanna kynntu niðurstöðu í auðlindaákvæðismálinu í dag. mbl.is/Guðmundur Rúnar

Þeir Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, kynntu nú síðdegis niðurstöðu, sem náðst hefur á milli stjórnarflokkanna um ákvæði um náttúruauðlindir í stjórnarskrá. Munu formennirnir flytja frumvarp til stjórnskipunarlaga á Alþingi þar sem fram kemur kjarninn í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að setja skuli ákvæði í stjórnarskrá þess efnis að auðlindir sjávar séu sameign íslensku þjóðarinnar. Jafnframt mun ákvæðið ná til allra náttúruauðlinda.

Þeir Geir og Jón boðuðu til blaðamannafundar í Alþingishúsinu nú síðdegis. Kom þar fram, að þeir muni flytja umrætt frumvarp sem þingmannafrumvarp í ljósi þess að stjórnarskrárnefnd fulltrúa allra þingflokka komst ekki að samkomulagi um breytingu í þessa veru.

Í frumvarpinu er áréttað, að réttinda einstaklinga og lögaðila, sem njóta eignarréttarverndar, skuli gætt. Þá er því lýst yfir, að náttúruauðlindir verði nýttar til hagsbóta fyrir þjóðina alla en það standi samt ekki í vegi fyrir því, að veita megi einkaaðilum heimildir til afnota eða hagnýtingar á sameiginlegum auðlindum. Slíkar heimildir séu eðli málsins samkvæmt afturkræfar og feli ekki í sér fullnaðarafsal þótt í þeim kunni að felast óbein eignarréttindi.

Ákvæðið er eftirfarandi samkvæmt frumvarpinu:

    Náttúruauðlindir Íslands skulu vera þjóðareign þó þannig að gætt sé réttinda einstaklinga og lögaðila samkvæmt 72. grein. Ber að nýta þær til hagsbóta þjóðinni, eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Ekki skal þetta vera því til fyrirstöðu, að einkaaðilum séu veittar heimildir til afnota eða hagnýtingar á þessum auðlindum samkvæmt lögum.

Á blaðamannafundinum kom fram, að ákvæðið taki með gagnorðum hætti á flóknum lögfræðilegum álitaefnum. Þegar mælt hafi verið fyrir frumvarpinu muni það ganga til sérnefndar Alþingis um stjórnarskrármálefni til umfjöllunar.

Þeir Geir og Jón sögðu á blaðamannafundinum, að þeir byggjust við því að skiptar skoðanir yrðu um málið innan þingflokkanna á Alþingi. Geir sagði að aldrei hefði annað staðið til en standa við stjórnarsáttmálann. Þegar hann var spurður hvort eðlilegt væri, að stór mál á borð við þetta væru unnin svona hratt svaraði hann að það mætti spyrja að því að en að í ljós yrði að koma hvaða rök væru fyrir því, að ekki mætti vinna mál af þessu tagi hratt.

Jón sagði ákvæðið stutt, skýrt og almennt eins og vera bæri í stjórnarskrá, og að það bæri vitni um þann vana í stjórnarsamstarfinu að vandamálin væri greind, þau tekin sem viðfangsefni, viðfangsefnunum svo breytt í úrlausnir sem yrðu að framförum og umbótum fyrir þjóðfélagið.

Þá bætti Jón því við að stjórnarflokkarnir vildu auðvitað taka því tilboði sem til þeirra hefði verið beint af stjórnarandstöðunni, og að nú stæði þeim til boða að vinna með þeim að leysa þetta mál. Geir tók undir það að ætla mætti að samhljómur yrði um málið á þingi miðað orð manna að undanförnu.

Sagði Geir að segja mætti að það ákvæði sem nú er að finna í fyrstu grein fiskveiðistjórnunarlaganna um sameign íslensku þjóðarinnar á fiskimiðum landsins, nytjastofnum, væri með þessu hækkað í tign og fært inn í stjórnarskrána í útvíkkaðri mynd. Geir sagði þetta auðvitað hafa táknræna þýðingu, en ekki þá að það breytti núverandi skipan mála, hvorki varðandi það að hægt væri að kippa grundvellinum undan atvinnugreinum, né að að atvinnugreinar geti aukið sinn eignarrétt frá því sem nú er, eignarrétturinn sé óbeinn og verði það áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert