Mosfellsbær hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem því er fagnað, að með niðurstöðu Skipulagsstofnunar hafi loks verið tekinn af allur vafi um það, hvernig standa beri að deiliskipulagi og undirbúningi tengivegar í fyrirhuguðu Helgafellshverfi. Undirbúningsvinna við umhverfisskýrslu með umræddu deiliskipulagi sé þegar hafin hjá bænum og því sé ljóst, að Mosfellsbær muni ekki undir neinum kringumstæðum kæra úrskurð Skipulagsstofnunar til umhverfisráðherra.
Þá undirstrikar Mosfellsbær, að fyrri niðurstaða Skipulagsstofnunar og umhverfisráðherra, um að umrædd framkvæmd sé ekki háð mati á umhverfisáhrifum standi óhögguð. Nú liggi hins vegar fyrir, að einnig þurfi að gera svokallaða umhverfisskýrslu eins og krafist sé í nýjum lögum um umhverfismat áætlana. Í slíkri skýrslu skuli m.a. koma fram að hve miklu leyti betur á við að fjalla um tiltekin umhverfisáhrif á síðari stigum áætlanagerðar til að forðast endurtekningar sama mats, eins og segi í lögunum.
Þegar vinnu við umhverfisskýrslu vegna umræddrar framkvæmdar lýkur verður deiliskipulagið auglýst að nýju með umhverfisskýrslunni, að sögn Mosfellsbæjar.