SUS andvígt auðlindaákvæði í stjórnarskrá

Samband ungra sjálfstæðismanna leggst eindregið gegn því að sett verði inn ákvæði í stjórnarskrá þar sem kveðið er á um að náttúruauðlindir séu þjóðareign. Í ályktun, sem stjórn sambandsins samþykkti í kvöld, segir að skýr einkaeignaréttur að náttúruauðlindum sé hornsteinn skynsamlegrar nýtingar auðlinda í allra þágu. Þjóðnýting hafi hvarvetna leitt til sóunar og lakari lífskjara.

Engu að síður segist Samband ungra sjálfstæðismanna telja það mikilvægt, að skýrt sé kveðið á um í frumvarpi formanna stjórnarflokkanna, að á engan hátt sé verið að raska eignaréttindum einstaklinga og lögaðila. Þannig séu atvinnu- og eignarréttindum þeirra sem nýta auðlindir Íslands tryggð stjórnarskrárvernd. SUS leggur áherslu á að fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að orðalagið „þjóðareign" vísi ekki til einhvers konar einkaeignarréttar íslenska ríkisins eða þjóðarinnar.

„Ungir sjálfstæðismenn skora á þingmenn Sjálfstæðisflokksins og þingheim allan að vanda verði til verka við fyrirhugaðar breytingar á stjórnarskránni. Það má aldrei verða að grundvallarlögum íslenskrar stjórnskipunar sé breytt í óðagoti og án þess að tryggt sé að ákvæði stjórnarskrárinnar séu skýr og hafin yfir allan vafa," segir í ályktun SUS.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert