Þjóðareign í stað sameignar þjóðarinnar

Formenn og varaformenn stjórnarflokkanna kynna frumvarp til stjórnskipunarlaga.
Formenn og varaformenn stjórnarflokkanna kynna frumvarp til stjórnskipunarlaga. mbl.is/Guðmundur Rúnar

Frumvarp þeirra Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, og Jóns Sigurðssonar, viðskiptaráðherra, um breytingu á stjórnskipunarlögum, var lagt fram á Alþingi síðdegis. Í greinargerð með frumvarpinu kemur m.a. fram, að hugtakið „sameign þjóðarinnar“ sem notað sé fiskveiðistjórnarlögum, hafi verið gagnrýnt fyrir að vera villandi þar sem það gefi um of til kynna að um hefðbundinn einkaeignarrétt sé að ræða. Af þeim sökum sé farin sú leið í frumvarpinu að nota orðið „þjóðareign“.

Í frumvarpinu segir, að náttúruauðlindir Íslands skulu vera þjóðareign. Í greinargerðinni segir, að sama hugtak sé notað í þingsályktun Alþingis frá árinu 1998 um skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald og sömuleiðis sé það að finna í tillögu auðlindanefndar að stjórnarskrárákvæði frá árinu 2000. Sé með því vísað til fullveldisréttar og sameiginlegrar ábyrgðar allrar þjóðarinnar á náttúruauðlindum Íslands og sérstaklega tekið fram, að ekki sé með þessari stefnuyfirlýsingu haggað við réttindum einstaklinga og lögaðila sem njóta verndar samkvæmt eignaréttarákvæðis stjórnarskrárinnar.

Þá kemur fram, að með frumvarpinu sé almenn stefnumörkun um meðferð og nýtingu náttúruauðlinda fest í stjórnarskrá. Eftir nánari athugun þyki rétt að þessi stefnumörkun nái til allra náttúruauðlinda, enda verði ekki séð, að önnur sjónarmið eigi við fiskveiðiauðlindina að þessu leyti en náttúruauðlindir almennt. Sé í því efni fylgt tillögu auðlindanefndar frá 2000.

Samkvæmt þessu fellur undir ákvæðið hvers kyns hagnýting á náttúrunni, hvort sem er dauðum eða lífrænum efnum, plöntum eða dýrum. Í ákvæði frumvarpsins felist þannig, að hagnýta eigi nytjastofna sjávar, hvers kyns auðlindir í jörðu og landgrunni, vatns- og vindafl, jarðnæði og gróður, villt og alin dýr o.s.frv., til hagsbóta fyrir þjóðina. Það falli svo í verkahring löggjafans að skilgreina nánar hvað séu náttúruauðlindir og hvernig nýtingu þeirra skuli háttað svo að þessu markmiði verði best náð.

Frumvarpið í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert