Þróunarsamvinnustofnun verði lögð niður

Lagt er til að Þróunarsamvinnustofnun verði lögð niður í núverandi mynd og starfsemi hennar sameinuð annarri starfsemi utanríkisráðuneytisins, samkvæmt skýrslu um þróunarsamvinnu Íslendinga sem unnin hefur verið á vegum utanríkisráðuneytisins.

Starfsfólk ÞSSÍ víðs vegar um heim vissi ekki af þessari tillögugerð og frétti sumt hvað af henni fyrst þegar það fékk sendan tölvupóst frá ráðuneytinu í gær, að sögn Sighvats Björgvinssonar, framkvæmdastjóra stofnunarinnar þegar Morgunblaðið náði í hann í gærkvöldi þar sem hann er staddur í Malaví í Afríku.

Rök skýrsluhöfunda fyrir tillögunni eru m.a. að með því að þróunarsamvinnu verði sinnt í ráðuneytinu sjálfu fáist heildarsýn á þróunarsamvinnu sem eina af stoðum utanríkisstefnunnar. Málaflokkurinn verði þá á fullri ábyrgð utanríkisráðherra, en í núverandi fyrirkomulagi sé ábyrgð óljós, þar sem stjórn ÞSSÍ sæki umboð bæði til Alþingis og ráðherra. Þá muni nást hagræðing og samlegð og dregið verði úr tvíverknaði í rekstri og stjórnun. Sögð er hætta á að eftir því sem framlög til þróunarsamvinnu hækki, aukist óþörf yfirbygging í ÞSSÍ. Þekking og reynsla á þróunarmálum muni nýtast betur með sameiningu og samstarf við frjáls félagasamtök verði einfaldara og skýrara.

Sighvatur sagðist ekki hafa haft hugmynd um að tillögur þessa efnis væru í undirbúningi og hefði ekki fengið fregnir um þær fyrr en starfsfólk hans hefði farið að hringja og spyrja hvað væri eiginlega að gerast. „Mér finnst þessi framkoma vera fyrir neðan allar hellur," sagði Sighvatur. „Okkur hefur ekki verið gefinn neinn kostur á því að bregðast við, koma með ábendingar eða nokkuð annað. Þetta eru algjörlega fordæmalaus vinnubrögð."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert