Erlendum ríkisborgurum hefur fjölgað mikið hér á landi undanfarin ár. Að sögn Hagstofunnar voru erlendir ríkisborgarar um síðustu áramót 18.563 talsins samanborið við 13.778 ári áður. Hlutfall útlendinga af íbúum í heild er nú 6% en var 4,6% hinn 31. desember 2005.
Undanfarin áratug hefur hlutfall íbúa með erlent ríkisfang meira en þrefaldast en árið 1996 nam hlutfall erlendra ríkisborgara af heildarmannfjölda 1,8%. Hlutfall erlendra ríkisborgara af heildarmannfjölda er nú ívíð hærra en í nágrannalöndunum.
Hagstofan segir, að í þessu sambandi sé þó rétt að hafa í huga að önnur Norðurlönd eigi sér lengri sögu um mikinn fjölda innflytjenda en Íslendingar og því líklegt að hlutfall innflytjenda, sem öðlast hefur ríkisfang í nýja landinu sé hærra þar en hér.
Eins og verið hefur allmörg undanfarin ár eru Pólverjar fjölmennastir útlendinga hér á landi, 5996. Litháar voru 998, Þjóðverjar 945 og Danir 936.
Allt til ársins 2003 voru konur fleiri en karlar í flutningum til landsins en eftir það hafa karlar verið umtalsvert fleiri. Í árslok 2006 voru 7,4% allra karla erlendir ríkisborgarar en einungis 4,7% kvenna. Árið 2001 var hlutfall erlendra kvenna 3,7% en karla 3,1%.
Á öllum landsvæðum hefur hlutfall erlendra ríkisborgara af heildarmannfjölda hækkað. Hlutfallslega flestir útlendingar eru nú búsettir á Austurlandi en rúmlega fjórðungur íbúa þar er með erlent ríkisfang. Hagstofan segir, að mikil fólksfjölgun á Austurlandi verði raunar nær eingöngu rakin til mikil aðstreymis útlendinga.
Á öðrum landsvæðum er hlutfall útlendinga af heildarmannfjölda nálægt landsmeðaltalinu, hæst á Suðurnesjum (7,4%) og á Vestfjörðum (7%) samanborið við 6% á landsvísu. Hlutfall útlendinga hefur reyndar um allangt skeið verið hærra á Vestfjörðum en annars staðar á landinu. Árið 1996 voru 3,7% íbúa Vestfjarða útlendingar samanborið við 1,8% á landinu í heild og árið 2001 var hlutfallið 5,9% á Vestfjörðum og 3,4% á landinu í heild. Hlutfallslega fæstir útlendingar búa á Norðurlandi (2,9%) og á höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur (3,7%).