Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri í Reykjavík, hefur boðið Háspennu að borgin kaupi húsnæði fyrirtækisins í Mjódd á 92 milljónir króna og afhendi félaginu, án endurgjalds, auða íbúðarhúsalóð í Vesturbænum sem metin er á 25–30 milljónir, samkvæmt upplýsingum frá Kristínu A. Árnadóttur, skrifstofustjóri borgarstjóra, í gær. Ekki náðist í Vilhjálm í gær en hann er staddur erlendis.
Kristín sagði að með þessu vildi borgarstjóri ljúka málinu og bæta Háspennu upp þann kostnað sem félagið hefði lagt út í vegna fyrirhugaðrar opnunar spilakassasalar í borginni en borgarstjóri hefði lagt mikla áherslu á að koma í veg fyrir að spilasalurinn yrði opnaður á þessum stað.
Kristín sagði að verðið á húsnæðinu í Mjódd væri hið sama og Háspenna hefði á sínum tíma greitt fyrir það, að teknu tilliti til verðbóta og vaxtakostnaðar. Húsnæðið yrði annaðhvort selt eða leigt. Lóðin sem um ræddi væri í eigu Reykjavíkurborgar og væri metin á 25–30 milljónir. Hana fengi Háspenna endurgjaldslaust og án gatnagerðargjalda. Háspenna hefði fyrir sitt leyti fallist á þessi málalok en málinu hefði í gærmorgun verið frestað í borgarráði að ósk minnihlutans. Engir samningar hefðu verið undirritaðir um málið.