Stjórnarandstaðan vill útskýringar á stjórnarskrárfrumvarpi

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/RAX

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagði að eftir yfirferð stjórnarandstöðuflokkanna yfir frumvarp formanna stjórnarflokkanna um breytingu á stjórnskipunarlögum, virtist sem annað tveggja væri þar á ferð. Annað hvort væri verið að stjórnarskrárbinda réttinn til að úthluta þjóðareign með varanlegum hætti eða að útvatna hugtakið þjóðareign þannig að það hafi ekki nokkurt gildi fyrir stjórnskipun Íslendinga.

Ingibjörg Sólrún sagði, að stjórnarandstaðan hefði síðdegis í gær verið boðuð á fund, þar sem óskað var eftir því að hún heimilaði afbrigði fyrir því að frumvarpið væri tekið á dagskrá þingsins í dag, en málið hefði ekki verið kynnt að öðru leyti. Stjórnarandstaðan hefði ekki verið tilbúin að veita þessi afbrigði vegna þess að hún hefði viljað fara yfir frumvarpið með sérfræðingum sínum. Nú hafi sú yfirferð farið fram og stjórnarandstaðan væri tilbúin að mæta til þings á morgun, ræða frumvarpið og koma því til nefndar því nauðsynlegt væri að fram færi pólitísk umræða og að stjórnarflokkarnir útskýrðu hvað þeir ætluðu sér með frumvarpinu.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði að stjórnarandstaðan hefði í vikunni boðið fram krafta sína til að greiða fyrir stjórnarskrárbreytingu og einkum boðið Framsóknarflokknum upp í dans eins og það var orðað. Geir sagðist aldrei áður hafa orðið vitni að því, á 20 ára þingferli, að stjórnarandstaðan mæti á fund með stjórnarflokkum og óski eftir skýringum á frumvarpi, sem formenn stjórnarflokkanna hefðu lagt fram. Til þess væri fyrsta umræða málsins, greinargerð með frumvarpinu og nefndarstarfið sem fylgdi í kjölfarið. Menn gætu svo velt því fyrir sér hve mikill hluti af málflutningi stjórnarandstöðunnar hafi verið alvara og hve mikill hluti hafi miðað að því að koma illu til leiðar eða fíflast með alvarleg málefni.

Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, sagði að það væri einmitt verið að fíflast með alvarleg mál. Ef marka mætti orð Einars Odds Kristjánssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, í Kastljósi Sjónvarpsins í gærkvöldi, þá þýddi ákvæði frumvarps formannanna ekki neitt annað en að festa í sessi núverandi kvótakerfi og eignarrétt manna á auðlindum.

Ögmundur Jónasson, þingflokksformaður VG, sagði að stjórnarskránni ætti ekki að breyta í þeim tilgangi að afla kjörfylgi í aðdraganda kosninga en framganga Framsóknarflokksins sérstaklega bæri öll þess merki. Grundvallaratriði væri, að í stjórnskipan þjóðarinnar ríkti stöðugleiki og festa og hætta væri á, samþykkt frumvarps formannanna skapaði óvissu um eignarréttarlega stöðu auðlindanna.

Jón Sigurðsson, viðskiptaráðherra, sagði að tilboð stjórnarandstæðinga fyrir nokkrum dögum um samstarf hefði greinilega aðeins verið pólitískur plötusláttur og stjórnarandstaðan hefði orðið uppvís að óheilindum í þessu máli.

Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, sagði að stjórnin væri að bjóða stjórnarandstöðunni upp í fallegan tangó þar sem hægt yrði að ná fram vilja allra stjórnmálaflokka til að upphefja náttúruauðlindirnar að þær verði eign allra Íslendinga og það verði staðfest í stjórnarskrá.

Ingibjörg Sólrún sagði í lok umræðunnar, að stjórnarandstaðan hefði boðið upp á samstarf við Framsóknarflokkinn í síðustu viku, því hún hefði trúað því, að flokkurinn vildi festa í sessi hugtakið þjóðareign í stjórnarskrá, sem ekki mætti selja eða láta varanlega af hendi til annarra aðila. Slíkt væri ekki fest í lög, ef frumvarp formanna stjórnarflokkanna yrði samþykkt. Því væri Framsóknarflokkurinn að ganga á bak orða sinna.

Geir H. Haarde sagði, að Ingibjörg Sólrún hefði með þessum orðum staðfest, að Framsóknarflokknum hefði verið boðið til samstarfs en ekki öðrum. Og samstaðan hefði verið rofin um leið og þessi leið var farin af hálfu stjórnarandstöðu. Nú hefði stjórnkænska stjórnarandstöðunnar leitt til þessarar stöðu, að ekki var lagt fram frumvarp allra þingflokka. Stjórnrandastaðan hefði orðið uppvís að pólitísku trixi og loddarahætti og hefði aðeins haft áhuga á að koma pólitískum illindum af stað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert