Casey Fenton, 28 ára Bandaríkjamaður, fékk óvenjulega hugmynd þegar hann skrapp til Íslands í frí: að stofna gistimiðlun þar sem fólk gæti leitað að ókeypis gistingu. Nú rekur hann fjölsóttan vef sem nefnist Beddaleitin (couchsurfing.com) þar sem fólk kemst í samband hvert við annað og býður gistingu og leiðsögn án þess að þiggja greiðslu fyrir.
Fjallað er um þetta í bandaríska blaðinu Washington Post í dag. Þar segir að Fenton hafi áður unnið ýmis „venjuleg" störf, svo sem tölvuforritun. Hann ákvað að skreppa til Íslands og leitaði sér að gistingu þar með afar óvenjulegum og jafnvel ólöglegum hætti. Hann braust inn í námsskrá Háskóla Íslands og sendi nokkur hundruð kvenkyns nemendum tölvupóst þar sem hann sagðist gjarnan vilja upplifa hið raunverulega Ísland með þeim. Yfir 50 svöruðu og Fenton átti afar ánægjulega vist á Íslandi.
„Þegar ég kom aftur frá Íslandi fannst mér allt liggja ljóst fyrir og ég fór að vinna að netsíðunni," hefur blaðið eftir Fenton. Nú eru yfir 173 þúsund áskrifendur að netsíðunni og þeim fjölgar um 400 daglega. Umsjónin með vefnum er orðið heilt starf.
Þjónustan á vefnum virkar þannig, að notendur vita um sig upplýsingar, segja hvert þeir eru að fara og óska síðan eftir gistingu með því að hafa samband með tölvupósti gegnum síðuna. Ef samningar takast fá ferðalangarnir gistingu í eina nótt eða fleiri. Sú gisting getur verið allt frá svefnpokaplássi á gólfi eða bedda til heillar íbúðar ef menn eru heppnir.
Notendur comcouchsurfing.com eru flestir á aldrinum 18-25 ára, meirihlutinn býr í Evrópu og Bandaríkjunum. Hægt er að fá lánaðan bedda í 213 löndum, þar á meðal í Jamaica, Singapúr, Ghana og Sádi-Arabíu. Captn Bob á Flórída býður m.a. gistingu í einkaklefa í báti sínum.