Íþrótta- og tómstundaráð samþykkti samhljóða á fundi sínum í gær að óska eftir viðræðum við Stjórn skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins og OR um könnun á snjóveitu á skíðasvæðum í Bláfjöllum og Skálafelli til framleiðslu á snjó til að tryggja frekari rekstrargrundvöll skíðasvæðanna til framtíðar.
"Við viljum snúa vörn í sókn fyrir hönd skíðafólks á Íslandi," segir Björn Ingi Hrafnsson, formaður Íþrótta- og tómstundaráðs. Bendir hann á að reynslan sýni að hægt sé að fjölga opnardögum til muna á skíðasvæðum með snjóframleiðslu. Spurður um kostnað við snjóframleiðslu segir Björn Ingi hugsanlega um einhverja tugi milljóna króna að ræða á ári. Segir hann það skynsamlega fjárfestingu ef hægt væri að fjölga opnunardögum.
"Það er búið að fjárfesta í uppbyggingu í Bláfjöllum fyrir hundruð milljóna, jafnvel meira, og það liggur núna ónotað nema einstaka daga sökum snjóleysis. Það er vond nýting á fjármunum. Við teljum að það geti orðið lyftistöng fyrir bæði skíðafólk og ferðaþjónustuna ef Bláfjallasvæðið, og mögulega Skálafell líka, getur aftur farið á fulla ferð, ef svo má segja."