Framtíðarlandið hvetur alla stjórnmálaflokka á Íslandi til að svara kalli almennings um auknar áherslur á náttúruvernd og umhverfismál, virða þau verðmæti sem felast í óspilltri náttúru landsins, og vaxtarhugmyndum sem byggja á hugviti, nýsköpun og útrás. Þetta kemur fram í tilkynningu sem samtökin hafa sent frá sér.
Þar segir jafnframt að tæp 73% Íslendinga vilji að stjórnmálaflokkar landsins leggi meiri áherslu á náttúruvernd og umhverfismál. Þá virðist afdráttarlaus umhverfisstefna Vinstri Hreyfingarinnar Græns Framboðs skila flokknum mikilli fylgisaukningu ef marka megi skoðanakannanir. Loks hafi fæðing nýs framboðs á hægri væng stjórnmálanna með sérstaka áherslu á umhverfismál verið boðuð á næstunni. Þetta ætti að vera öðrum stjórnmálaflokkum skýr vísbending um þær væntingar sem kjósendur hafa til þeirra á sviði umhverfismála í Alþingiskosningum 12. maí, segir í tilkynningunni.
„Stjórnmálamenn úr öllum flokkum, þar á meðal fyrrverandi og núverandi ráðherrar stjórnarflokkanna, auk forseta Íslands hafa nýverið ljáð máls á því opinberlega að ekkert liggi á í virkjana- og stóriðjumálum, meðal annars vegna þess að fátt bendi til annars en að orkuverð muni gera annað en að hækka. Þá hefur Björn Bjarnason dómsmálaráðherra sagt að ástæðulaust sé að semja um sérkjör til að fá hingað álfyrirtæki og að gera eigi afdráttarlausa kröfu til þess að í ákveðinni fjarlægð frá þéttbýli verði séð til þess að raflínur verði lagðar í jörðu.
Nýlegar hugmyndir um vistvæn not fyrir orku Íslands, s.s. með rekstri gagnabanka og framleiðslu á vistvænu eldsneyti fyrir bíla- og skipaflota landsins bera einnig vott um að sífellt fleiri landsmenn eru að vakna til vitundar um þann aragrúa framtíðarmöguleika sem liggja í hreinni orku Íslands. Framtíðarlandið fagnar skynsemisröddum hvaðanæva úr litrófi stjórnmálanna og hvetur stjórnvöld til að hægja umsvifalaust á þeirri hröðu virkjana- og stóriðjuvæðingu sem einkennt hefur síðustu ár.
Af gefnu tilefni vill Framtíðarlandið árétta að félagið mun ekki bjóða fram fram til Alþingis, er ekki stjórnmálaflokkur og mun ekki styðja einstök framboð. Framtíðarlandið er hugmyndaveita og þrýstiafl sem hvetur ráðamenn til góðra verka. Fólk úr öllum stjórnmálaflokkum skipar raðir Framtíðarlandsins.
Framtíðarlandið – félag áhugafólks um framtíð Íslands var stofnað 17 júní 2006 á fjölmennum fundi í Austurbæ. Frumkvæðið kemur frá fólki af ólíkum sviðum þjóðlífsins sem telur að þörf sé fyrir afl sem upplýsir, gagnrýnir og leggur til nýja framtíðarsýn á Íslandi með öflugra lýðræði, réttlæti, menntun og skapandi atvinnustefnu. Framtíðarlandið er þverpólitískt félag með víðtækri þátttöku frumkvöðla, fræðimanna, viðskiptafólks, listamanna og einstaklinga af öllum sviðum atvinnulífsins. Framtíðarlandið trúir því að Íslendingar geti skipað sér í röð þeirra þjóða sem gegna alþjóðlegu forystuhlutverki í vernd og virðingu fyrir umhverfinu, enda samrýmist það sterkri ímynd vörumerkisins Íslands og í því felast fjölmargir möguleikar. Framtíðarlandið vill standa vörð um náttúru landsins, sem er fjöregg þjóðarinnar. Stofnfélagar eru á þriðja þúsund.
Umhverfismál eru þverpólitískt málefni á Íslandi í dag og mun Framtíðarlandið leggja sitt af mörkum í aðdraganda komandi Alþingiskosninga til að um þau náist kjörkuð, ábyrg og afgerandi sátt,“ segir í fréttatilkynningu frá Framtíðarlandinu.