Umferðaróhapp varð á sveitabæ í Mývatnssveit á fjórða tímanum í nótt. Að sögn lögreglunnar á Húsavík féll maður í hálku fyrir aftan bifreið sem síðan bakkaði á manninn sem beinbrotnaði.
Að sögn lögreglu hafði ökumaður bifreiðarinnar verið að aka fólki heim á sveitabæinn þegar atvikið gerist. Sá sem varð fyrir bílnum hrasaði í hálku og datt fyrir aftan bifreiðina. Ökumaðurinn varð einskis var, bakkar lítillega og keyrir á öxl mannsins. Ökumaðurinn ók síðan af stað en ekki leið á löngu þar til hann hefur áttað sig á því sem hafði gerst.
Sá sem varð fyrir bílnum var fluttur á sjúkrahús á Akureyri, en hann er talinn vera axlar- eða upphandleggsbrotinn.