Nýr gervigrasvöllur formlega afhentur ÍR

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri Reykjavíkur, afhenti í dag Íþróttafélagi Reykjavíkur formlega til afnota nýjan gervigrasvöll, sem gerður hefur verið við félagsheimili ÍR að Skógarseli 12. Afhendingin var í tengslum við 100 ára afmæli ÍR.

Gervigrasvöllurinn ásamt öryggissvæðum er nær 9 þúsund fermetrar og er hann afgirtur með fjögurra metra hárri stálgrindargirðingu. Gervigrasvöllurinn er flóðlýstur með 18 m háum ljósamöstrum, sex að tölu. Heildarlengd hitalagna í jörð er um 33 km. Völlurinn er upphitaður með gegnumstreymis hitakerfi með fjarstýrðum vöktunarbúnaði og er búist við að með honum náist verulegur sparnaður þar sem vatnsnotkun verður líklega aðeins þriðjungur eða fjórðungur á við sambærilega velli.

Gervigrasið, sem er frá Hollandi af svokallaðri þriðju kynslóð, uppfyllir allar nýjustu kröfur frá UEFA og KSÍ um gervigras. Reiknað er með að nýting á gervigrasvöllum sé um 15 sinnum meiri en á hefðbundnum grasvöllum.

Verkefnisstjórn var á hendi mannavirkjaskrifstofu Framkvæmdasviðs.

Heildarkostnaður við framkvæmdina er áætlaður um 140 milljónir króna (á verðlagi janúar 2007).

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert