Að sögn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins hefur gegnið vel að dæla vatni úr bílakjallaranum undir Sólvallagötu 81-84 í vesturbæ Reykjavíkur. Dælubílar slökkviliðsins hafa lokið sínu verki og nú hefur dælukerfi hússins tekið við og aðrar lausar dælur. Ljóst er að skólpvatn hefur runnið inn í kjallarann og þá voru á bilinu 20 til 30 bifreiðar í kjallaranum þegar vatnið byrjaði að leka, því er einnig ljóst að a.m.k. um tugmilljóna króna tjón er að ræða.
Neyðarlínan hefur sent út boð samtímis til íbúa í nágrenninu um að fólk kanni með kjallarana í sínum húsum, þ.e. hvort þar hafi einnig orðið vatnsleki. Að sögn varðstjóra hjá slökkviliðinu eru upplýsingar um það að byrja að skila sér inn. Ljóst sér að vatn hefur lekið víðar en í bílakjallaranum undir Sólvallagötu.
Að sögn slökkviliðsins virðist sem að bilun hafi komið upp í dælustöð við Ánanaust í nótt, en talið er að rekja megi bilunina til eldingar sem laust háspennulínur Landsnets. Af þeim sökum fór skólp ekki úr niðurföllum heldur rann það inn í bílakjallarann sem fyrr segir, en allt að 2.000 tonn af vatni rann inn í kjallarann. Varðstjórinn segir það hafa verið lán í óláni að nú sé tiltölulega lágsjávað, sjávarstaðan sé um þrír metrar, og því hefði getað farið verr ef það hefði verið hásjávað.
Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri SHS, segir að slökkviliðið hafi boðað fulltrúa tryggingarfélaganna á staðinn svo félögin gætu metið stöðuna með íbúunum. „Þetta er með því mesta sem við höfum þurft að dæla upp úr einstaka húsi. Við höfum náttúrurlega lent í meira vatnstjóni í heildinni, en ekki svona mikið á einum stað, eða í einu húsi,“ sagði Jón Viðar í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins.
Sem fyrr segir voru á bilinu 20-30 bifreiðar í kjallaranum þegar vatnið fór að leka. Auk þess er annar kjallari, sem tilheyrir íbúum hússins, undir bílakjallaranum og líklegt þykir að þar hafi einnig orðið miklar skemmdir.
Slökkviliðið býst við því að ljúka störfum á Sólvallagötunni nú um hádegið, en að sögn varðstjóra hafa fleiri tilkynningar um vatnsleka borist. T.d. hefur lekið inn í verslun BYKO við Hringbraut. Þeir eru hinsvegar minniháttar miðað við þann sem varð á Sólvallagötunni.