Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði á Alþingi í dag að ríkisstjórnin muni á morgun ræða um þau vandamál, sem við blasa í atvinnu- og byggðamálum á Vestfjörðum. Sagðist Geir geta fullvissað þingheim um, að fullur vilji af hálfu ríkisstjórnarinnar væri til að fara yfir þessi mál með þeim hætti að það skili árangri fyrir Vestfirði og það yrði rætt sérstaklega í ríkisstjórn á morgun.
Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, tók þetta mál upp í fyrirspurnartíma á Alþingi og vísaði til ályktunar opins borgarafundar á Ísafirði í gær, þar sem skorað var á stjórnmálaflokka að taka höndum saman um að leysa þau vandamál, sem blasi við í atvinnu- og byggðamálum á Vestfjörðum.
Geir sagði, að tilefni ályktunarinnar væri væntanlega það, að Marel hefði ákveðið að hætta starfsemi á Ísafirði og það bæri vissulega að harma.
Guðjón spurði, hvort ríkisstjórnin yrði reiðubúinn til samstarfs við þingmannahóp Norðvesturkjördæmis ef hann næði saman um ákveðnar tillögur um málið. Guðjón sagði að slíkt væri að vísu ekki auðvelt svo skömmu fyrir kosningar en það væri tilraunarinnar virði, að reyna að ná niðurstöðu með ríkisstjórninni í þessum málum.
Geir sagði, að ríkisstjórnin væri að sjálfsögðu tilbúin til samstarfs við þingmenn kjördæmisins og benti á að þrír þingmenn Norðvesturkjördæmis ættu sætu í ríkisstjórninni.