Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði í umræðu um frumvarp formanna stjórnarflokkanna um auðlindaákvæði í stjórnarskrá, að um væri að ræða sögulegan og mikilvægan áfanga, sem hefði áralangan aðdraganda. Með því öðluðust náttúruauðlindir þjóðarinnar nýja stöðu og jafnframt væri óbreytt staða nýtingarheimilda, sem ekki gætu eða myndu leiða til beins eignarréttar heldur væru afturkallanlegar.
Jón sagði, að frumvarpið væri útfærsla á sameiginlegri niðurstöðu beggja stjórnarflokkanna, sem hefði náðst fyrir mörgum árum og byggt beinlínis á því ákvæði stjórnarsáttmálans að auðlindir sjávar séu sameign íslensku þjóðarinnar. Jón vísaði einnig í ummæli forsvarsmanna stjórnarandstöðuflokkanna um að þeir væru reiðubúnir til að aðstoða og styðja við frumvarp, sem yrði byggt beinlínis á orðum stjórnarsáttmálans.
Viðskiptaráðherra sagði mjög mikilvægt, að kveða á um þjóðareign á auðlindum í stjórnarskrá. Með slíkum hætti væru settar skýrar grundvallarreglur um þetta úrslitamikilvæga málefni þjóðarinnar. Þar með væri fyllsta öryggi væri tryggt og stöðugleiki um þessi mikilvægu réttindi og eigur þjóðarinnar.
Jón sagði að rökræða lögfræðinga um hugtökin þjóðareign, sameign þjóðar eða ríkiseign hefðu lengi staðið og myndu vafalaust halda áfram um langt árabil. Það er ekki verkefni löggjafans að bíða eftir því sem aldrei verður, að lögspekingar komist að einni sameiginlegri niðurstöðu. Jón sagði dæmi um hugtakið væru kunn í lagatexta og það styddist einnig við lög um þjóðgarðinn á Þingvöllum, þar sem stendur m.a. að Þingvellir séu ævinleg eign íslensku þjóðarinnar.
Þá sagði Jón, að hugtakið og raunveruleikinn þjóðareign fæli það í sér, að eignartilkalli eða yfirráðatilburðum einkaaðila, hvort sem um væri að ræða einkaaðila, lögaðila, samtaka, stórfyrirtækja eða gróðaaðila, væri hafnað og hrundið í eitt skipti fyrir öll. Þessi höfnun skipti mjög miklu máli og það öryggi, sem stjórnarskráin veitti. „Hér er því ekki um neinskonar réttaróvissu að ræða," sagði Jón.