"Þetta kvöld á eftir að endurtaka sig"

eftir Önnu Pálu Sverrisdóttur

aps@mbl.is

"Við vonum að meintir brotamenn festi sér þetta kvöld í minni því þetta á eftir að endurtaka sig," segir Jóhann R. Benediktsson sem er lögreglustjóri Suðurnesja. Um helgina gerðu lögregluyfirvöld umfangsmikla rassíu í fíkniefnamálum á svæðinu.

"Við sameiningu embætta tollstjóra og lögreglu á Suðurnesjum myndast aukinn slagkraftur og það er auðveldara á allan hátt að skipuleggja svona stærri aðgerðir," segir Jóhann. Auk þess sé nú verið að þétta samstarf við sérsveit og greiningardeild Ríkislögreglustjóra en aðgerðir fóru fram í samstarfi við þær. "Við erum einfaldlega að herða okkur í baráttu gegn sölu og dreifingu fíkniefna á Suðurnesjum."

Um var að ræða alhliða aðgerðir á öllu svæðinu en alls tóku 36 lögreglumenn, fjórir tollverðir og tveir fíkniefnahundar þátt í þeim. Farið var í sex húsleitir og þar af voru fimm framkvæmdar á sama tíma á laugardagskvöld. Í öllum tilfellum fundust fíkniefni; samtals 135 grömm af hassi, 65 grömm af hvítu efni og 10 e-pillur. "Þetta var árangur umfram væntingar, jafnvel þótt við hefðum rökstuddan grun um að allt þetta fólk tengdist notkun, sölu og dreifingu fíkniefna," segir Jóhann. Einnig var eftirlit hert og farið í markvissar aðgerðir á skemmtistöðum þar sem leitað var á tuttugu manns og fundust tvö grömm af amfetamíni á einum.

Allir sem við sögu komu í húsleitum eiga afbrotaferil að baki. Spurður um tengsl við annars konar glæpastarfsemi segir Jóhann að sjaldan sé ein báran stök í þessum efnum. Fólk tengist oft annars konar glæpum, svo sem þjófnaði og peningaþvætti auk þess sem vændi hafi löngum verið fylgifiskur mikillar neyslu ungra kvenna.

"Nú er farið að bera á því að fólk leyni neyslu minna en áður. Það er auðvitað mjög slæm þróun sem við ætlum að sporna mjög ákveðið við.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka