Hugmyndir um að sekta ökumenn sem leggja á fjöll þrátt fyrir vont veðurútlit og þurfa á aðstoð björgunarsveita að halda, eru fjarstæðukenndar, segir Benedikt Magnússon, formaður 4x4 klúbbsins.
Verði slíku sektarkerfi komið á auki það hættu á því að fólk tregðist við að leita sér aðstoðar fyrr en í óefni er komið. "Það má aldrei koma til þess að menn þurfi að borga sjálfir vegna þess að það skapar meiri hættu."
Um helgina fóru fram umfangsmiklar björgunaraðgerðir á Langjökli vegna ferðamanna sem þangað fóru þrátt fyrir slæma veðurspá. Benedikt bendir á að veðurspár séu ekki annað en spár. "Innan hópa jeppaferðamanna eru menn sem eru margir hverjir mun betur útbúnir heldur en flestir ef ekki allir björgunarsveitarbílar," segir Benedikt. Þeir eigi að vera í stakk búnir til þess að takast á við "nánast hvað sem er".
"Þess vegna er það oft þannig að menn fara af stað þó svo að veðurútlitið sé ekki sérstaklega gott," segir Benedikt. Menn séu þá reiðubúnir til þess að bíða af sér veður og halda kyrru fyrir ef þess þurfi.
Séu menn hins vegar að leggja af stað í tvísýnu útliti án þess að vera vel útbúnir og með nauðsynlegan fjarskiptabúnað, eigi þeir heldur að sitja heima.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.