eftir Ómar Friðriksson
omfr@mbl.is
Reynt verður að ná þverpólitískri samstöðu um aðgerðir vegna vanda sem blasir við í atvinnu- og byggðamálum Vestfirðinga. Þingmenn úr kjördæminu, bæði úr stjórn og stjórnarandstöðu, komu saman í gær til að ræða ályktun borgarafundarins á Ísafirði sl. sunnudag. Ætla þeir að hittast aftur í dag.
Fram kom í máli Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, á Alþingi í gær að ríkisstjórnin mundi í dag ræða þessi vandamál. Sagðist Geir geta fullvissað þingheim um, að fullur vilji væri af hálfu ríkisstjórnarinnar til að fara yfir þessi mál með þeim hætti að það skilaði árangri fyrir Vestfirði.
Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, boðaði þingmennina saman í gær og tók þetta mál einnig upp í fyrirspurnartíma á Alþingi. Fram kom í máli Geirs að ríkisstjórnin væri að sjálfsögðu tilbúin til samstarfs við þingmenn kjördæmisins.
Jón Sigurðsson, viðskipta- og iðnaðarráðherra, sagðist í gær fagna frumkvæði heimamanna á Vestfjörðum að ræða þessi brýnu úrlausnarefni. Sagðist hann vera sammála áherslu þeirra á að um væri að ræða sameiginlegt verkefni, sem stæði fyrir ofan alla flokkadrætti.
Að sögn Jóns er nú unnið að 12 veigamiklum verkefnum á grundvelli vaxtarsamnings fyrir Vestfirði og á vettvangi Byggðastofnunar er unnið að a.m.k. 10 verkefnum á Vestfjörðum. "En það þarf miklu meira að koma til á næstunni," sagði Jón og bætti við að þessi viðfangsefni væru til umræðu á milli ráðherra og þingmanna úr kjördæminu. "Við tökum ályktun þessa fundar og fundinn sjálfan sem mjög sterka hvatningu til þess að taka virkilega fast á þessum málum," segir hann. Fram hefur komið að Marel hefur ákveðið að hætta starfsemi á Ísafirði og að sögn Jóns Sigurðssonar er m.a. verið að skoða hvort hægt er að bjóða störf áfram á þeim vettvangi á Ísafirði.
Þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna í Norðvesturkjördæmi eru á einu máli um að hægt sé að grípa til aðgerða strax, m.a. í samgöngumálum og gera ráðstafanir til að lækka flutningskostnað.