Ríkisstjórnin samþykkti í dag tillögu utanríkis- og félagsmálaráðherra um að tekið verði við 20-30 flóttamönnum hér á landi árlega en að undanförnu hafa flóttamannahópar komið hingað á tveggja ára fresti. Búist er við að næsti hópur flóttamanna komi hingað til lands fyrir mitt þetta ár.
Að sögn Aðalheiðar Sigursveinsdóttur, aðstoðarmanns utanríkisráðherra, er miðað við að næsti flóttamannahópur verði af svipaðri stærð og samsetningu og sá síðasti sem kom árið 2005 en þá komu hingað einstæðar mæður og börn frá Kosovo og Kólumbíu. Móttaka flóttamanna er í samvinnu við Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna, Rauða kross Íslands og sveitarfélög.
Aðalheiður sagði, að rætt væri um að fá svipaðan hóp og síðast, þ.e. einstæðar mæður með börn frá skilgreindum hættusvæðum. Flóttamannaráð taki nú við framkvæmd málsins. og m.a. verður rætt við sveitarfélög um að taka á móti flóttamönnunum. Síðasti hópur kom til Reykjavíkur og sagði Aðalheiður, að þar sem um væri að ræða konur og börn þurfi það sveitarfélag, sem tekur á móti þeim, að hafa þéttriðið net félagsþjónustu.
Gert er ráð fyrir að kostnaður ríkisins við að taka á móti hverjum hópi flóttamanna sé um 30-40 milljónir króna.