Frumvarp um auðlindarákvæði ekki afgreitt úr nefnd í dag

Ljóst er að sérnefnd um stjórnarskrármál mun ekki afgreiða frumvarp formanna stjórnarflokkanna um auðlindaákvæði í stjórnarskrá í dag. Nefndin settist á fund í morgun og stendur sá fundur enn yfir. Birgir Ármannsson, formaður nefndarinnar, segir að verið sé að leggja drög að öðrum fundi í fyrramálið.

Birgir segir, að sérfræðingar hafi komið á fund nefndarinnar í gærkvöldi og í morgun. Í dag hefur m.a. verið rætt við fulltrúa Landsambands íslenskra útvegsmanna og Samorku. Þá komu þrír lögmenn til fundar við nefndina í gærkvöldi og fimm hafa komið í morgun.

Birgir sagði að mismunandi sjónarmið hefði komið fram um frumvarp en allt of snemmt væri að segja til um hvort nefndin muni leggja til breytingar á því.

Samkvæmt starfsáætlun Alþingis er síðasti starfsdagur þess fyrir kosningar á morgun en almennt er reiknað með að þingfundir verði eitthvað lengur fram eftir vikunni. Almennar stjórnmálaumræður, eldhúsdagsumræðurnar svonefndu, verða í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert