eftir Örlyg Stein Sigurjónsson
orsi@mbl.is
Það voru vægast sagt engar kurteisisheimsóknir sem grunaðir fíkniefnasalar fengu um síðastliðna helgi á Suðurnesjum í einni stærstu lögregluaðgerð sem efnt hefur verið til gegn fíkniefnadreifingu. Hátt í 40 lögreglumenn ásamt fíkniefnadeild tollstjórans á Suðurnesjum, sérsveit Ríkislögreglustjóra og greiningardeild Rls. stóðu að aðgerðinni og komu mönnum með afbrotaferil að baki í opna skjöldu. Oft voru brotnar upp dyr og ruðst inn hjá mönnum.
Meðal annars var farið inn til meintra handrukkara sem lögreglan telur að hafi farið um með ofbeldi á Suðurnesjum. Einhverjum þeirra brá svo mikið að þeir gripu til þess ráðs að stökkva fram af svölum á 2. hæð til að flýja lögregluna en voru handteknir. Á mannamáli var lögreglan fjandi grimm og margdæmdum afbrotamönnum var mjög brugðið. Lagt var hald á fíkniefni og ýmis gögn sem voru mikilvæg fyrir lögregluna. Er verið að vinna úr þeim þessa dagana. Húsleitir voru sex auk þess sem leitað var á 20 manns á skemmtistöðum á svæðinu.
Aðgerðir af þessu tagi krefjast þess að lögreglustjórnendur hafi úr miklum mannskap að spila á sama tíma en svigrúm til þess hefur stóraukist eftir sameiningu lögregluembættanna, að mati Jóhanns R. Benediktssonar, lögreglustjóra á Suðurnesjum. "Þetta er aðallega spurning um breytt skipulag en ekki aukin útgjöld og það er lykilatriðið," bendir Jóhann á. "Með þessu fæst aukinn slagkraftur í lögregluna að ekki sé talað um þátt Ríkislögreglustjóra sem getur fært til fastamenn sína og sett þá í svona verkefni. Með stækkun lögregluumdæmisins á Suðurnesjum jafnhliða eflingu sérsveitar Rls. er nú með afgerandi hætti unnt að valda það alvarlegri röskun á starfsemi fíkniefnamarkaðarins að sölumenn leiti í örvæntingarfullar og illa ígrundaðar leiðir til að koma efnunum í umferð og það er við slíkar aðstæður sem þeir verða lögreglunni auðveld bráð," segir hann.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.