Lögreglan á Egilsstöðum veitti bifreið eftirför síðdegis í dag og var bifreiðinni m.a. ekið frá Egilsstöðum upp á Fagradal og til baka og þaðan til Reyðarfjarðar og Eskifjarðar og aftur til Egilsstaðar. Ökumaður sinnti ekki skipunum lögreglu um að stöðva bifreiðina. Maðurinn er nú í haldi lögreglunnar en hann er grunaður um ölvun við akstur.
Lögreglan fékk tilkynningu um glæfraakstur ökumanns á sportbíl innanbæjar á Egilsstöðum rétt eftir klukkan 16 í dag. Skömmu síðar urðu lögreglumenn varir við bílinn í bænum en ökumaður sinnti engum merkjum lögreglu um að nema staðar og hvarf sjónum lögreglumanna.
Aftur sást til bílsins þar sem honum var ekið upp á Fagradal og enn hvarf hann sjónum þeirra. Nokkru síðar var bílnum ekið til baka á Fagradalnum á móti lögreglubifreiðinni en eins og áður sinnti ökumaður engum merkjum um að stöðva.
Bílnum var því næst ekið til Egilsstaða og lögreglubifreiðin fór í humátt á eftir. Lögreglumenn á Egilsstöðum sáu næst til bílsins innanbæjar en tókst ekki að stöðva hann og lá leiðin aftur upp á Fagradal.
Þegar hér var komið sögu voru komnir til aðstoðar lögreglumenn á sex lögreglubifreiðum frá embættinu á Eskifirði. Ökumaður sportbílsins ók nú til Reyðarfjarðar þar sem gerð var tilraun til að stöðva akstur bifreiðarinnar en ökumaður skeytti því engu og ók framhjá lögreglubílum. Hann ók því næst í gegnum bæinn á Reyðarfirði og til Eskifjarðar þar sem hann sneri við. Þaðan ók hann til baka til Egilsstaða og sinnti eins og áður engu um tilraunir lögreglu til að stöðva akstur hans.
Eftirförinni lauk á Egilsstöðum, nokkru fyrir kl. 18 fyrir utan heimili ökumannsins en þar var hann handtekinn af lögreglumönnum frá Eskifirði.
Að sögn lögreglunnar mældist hraði bílsins mestur 182 km á klukkustund en mestur hraði innanbæjar, sem náðist að mæla, var á Reyðarfirði, 134 km á klukkustund.
Ökumaður er grunaður um ölvun við akstur og gistir fangageymslu lögreglunnar á Egilsstöðum.