Söfnuninni „Börn hjálpa börnum 2007” verður slitið með táknrænum hætti á morgun þegar nemendur í Melaskóla afhenda Guðrúnu Margréti Pálsdóttur og Sigurlínu Þ. Sigurjónsdóttur, hjá ABC barnahjálp, söfnunarbauka sína. Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra mun við sama tækifæri afhenda 12 milljónir króna til landakaupa í Pakistan þar sem skólar verða reistir.
Mikil og góð þátttaka hefur verið í söfnuninni í ár og hafa um 3.000 börn í 105 grunnskólum um land allt gengið í hús og safnað framlögum í bauka. Safnað var fyrir byggingu heimavistarskóla ABC í Pakistan og Kenýa. Söfnunin „Börn hjálpa börnum“ hefur verið haldin árlega undanfarin 10 ár og hafa margir skólar og barnaheimili verið reist fyrir söfnunarfé íslenskra grunnskólabarna.
Nemendur í framhaldsskólum hafa einnig tekið þátt í að safna fyrir Pakistan og nú stendur yfir söfnun nemenda í Fjölbrautarskólanum í Ármúla fyrir fimmta ABC skólanum í Pakistan í þorpinu Gujranwala, en þeir fetuðu í fótspor Borgarholtsskóla sem safnaði í fyrra fyrir byggingu skóla í þorpinu Jaranwala í Pakistan. Frá þessu segir í tilkynningu frá ABC barnahjálp.