Engir stjórnmálamenn þrýstu á lögreglu áður en rannsókn Baugsmáls hófst

Jón H.B. Snorrason.
Jón H.B. Snorrason. mbl.is/RAX

Jón H.B. Snorrason, fyrrum yfirmaður efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra, sagði aðspurður við skýrslutöku í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag, að engir stjórnmálamenn hefðu haft samband við hann áður en rannsókn á Baugsmálinu svonefnda hófst eða þar á eftir. Jón neitaði því einnig að stjórnmálamenn eða ráðherrar hefðu reynt að hafa áhrif á rannsóknina.

Jón var spurður um það hvernig það hefði komið til, að Jón Gerald Sullenberger afhenti lögreglu gögn um málið. Sagði Jón að Jón Steinar Gunnlaugsson, sem þá var lögmaður Jóns Geralds, hefði haft samband við sig, og í kjölfarið var Jón Gerald kallaður til skýrslugjafar.

Fram hefur komið, að Jón sótti Jón Gerald á bíl sínum til skýrslugjafarinnar. Þegar hann var beðinn að skýra það sagðist hann hafa verið staddur í Hafnarfirði vegna annarra erinda og beint hafi legið við að taka Jón Gerald með, sem staddur var í Kópavogi. Jón sagði einnig eðlilegar skýringar á því hvers vegna lögregluskýrsla um yfirheyrsluna, sem fór fram á laugardegi, lá ekki fyrir fyrr en daginn eftir.

Jón var spurður hvort hann eða einhver á hans vegum hefði haft samband við blaðamann Morgunblaðsins í apríl 2004 og látið hann vita af húsleit hjá Kaupþingi í Lúxemborg. Því neitaði Jón, og sagði að það hefði verið sér og sínu embætti í óhag að vitneskja bærist út um að slík rannsókn stæði fyrir dyrum.

Jón var einnig spurður um þann framburð Helga Sigurðssonar, starfsmanns Kaupþings, um að Jón og aðrir starfsmenn efnahagsbrotadeildar hefðu fagnað í fundarsímtali þegar þeim var sagt, að að engin gögn hefðu fundust í bókhaldi Kaupþings um rúmlega 13 milljóna kröfu Baugs á hendur bankanum. Jón sagði það alveg fráleitt, að það hafi brotist út fögnuður, og sagðist engin orð hafa um þessa fullyrðingu.

Gestur Jónsson, lögmaður Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, spurði Jón um það hvort að við rannsóknir á gögnum hafi jafnt verið leitað að skjölum og tölvupóstum, sem bentu til sektar og sektarleysis. Jón fullyrti, að svo hefði verið. Gestur tíndi til ýmsa pósta og spurði hvers vegna þeir hefðu ekki verið notaðir og Jón svaraði yfirleitt, að þeir hefðu ekki þótt varða rannsóknarefnið.

Fram hefur komið, að Jón Gerald sendi lögreglu á Íslandi 500 síður á faxi vegna málaferla í Bandaríkjunum. Jón sagði aðspurður að þetta hefði verið að frumkvæði Jóns Geralds. Gestur spurði hvort það væri einsdæmi, að maður í einkamálarekstri erlendis héldi lögreglu upplýstri um gang þess máls. Jón sagði það ekki einsdæmi en sagðist ekki geta nefnt dæmi vegna þess að hann væri bundinn trúnaði.

Þegar hann var síðan spurður hvers vegna hann hefði ekki látið yfirheyra tiltekin vitni og starfsmenn stofnana sagði hann, að ekki væri sjálfgefið, við rannsókn svona mála, að yfirheyra fleiri en færri og vísaði til meðalhófsreglu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert