Fram kom á Alþingi í dag, að væntanlega verði boðað til fundar forustumanna þingflokka með forseta Alþingis í dag til að kanna hvort grundvöllur sé fyrir samkomulagi um þinglok. Mikill fjöldi mála er enn á dagskrá þingsins, og sérnefnd um stjórnarskrármál hefur ekki lokið umfjöllun um stjórnarskrárfrumvarp formanna stjórnarflokkanna.
Ögmundur Jónasson, þingflokksformaður VG, sagði að 80 mál væru á dagskrá þess þingfundar, sem nú stendur yfir, og allar hillur væru að fyllast af þingskjölum en samkvæmt starfsáætlun á störfum þingsins að ljúka í dag.
Þá benti Ögmundur á að sérnefnd um stjórnarskrármál hefði setið á maraþonfundum um stjórnarskrárfrumvarpið og ekki sæi fyrir endann á því máli. „Mér býður í grun, að hér sé á ferðinni pólitískur loddaraleikur sviðsettur af Framsóknarflokknum," sagði Ögmundur og vildi fá svör um hvernig forseti þingsins hygðist stýra þinghaldinu í dag. Benti hann á, að stjórnarandstaðan hefði boðist til að lengja þinghaldið svo stjórnarskrárfrumvarpið fengi vandaða umfjöllun.
Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði að nefndir Alþingis hefðu verið afkastamiklar og afgreitt frá sér mörg mál sem væru komin á dagskrá. Ljóst væri, að enn væri margt ógert áður en þingi lyki. Sagðist hann gera ráð fyrir því, að forustumenn flokkanna og forseti Alþingis muni í dag tala saman um þau mál og kanna hvort grundvöllur sé fyrir samkomulagi þannig að allir hafi fullan sóma að.