Ráðherra skrifar bréf vegna íslensks fanga í Virginíu

Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, hyggst rita bréf til ríkisstjóra Virginíufylkis, og leita eftir því að Íslendingur, sem þar situr í fangelsi og afplánar 20 ára dóm fyrir vopnað rán, fái að afplána hluta af dómnum hér á landi. Ólíklegt er þó talið að jákvætt svar berist við bréfinu.

Þetta kemur fram í svari utanríkisráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur á Alþingi en Jóhanna spurði hvort ráðherra ætli að beita sér fyrir því að Íslendingurinn eigi eigi þess kost að koma hingað til lands og ljúka afplánun hér. Fjallað var ítarlega um mál fangans, sem heitir Geir Þórisson, í Kastljósi Sjónvarpsins fyrir skömmu.

Fram kemur í svari Valgerðar, að íslensk stjórnvöld hafi ítrekað komið að og beitt sér í þessu máli. Þannig hafi fanginn óskað eftir því í apríl árið 2000, að verða fluttur til Íslands á grundvelli samnings um flutning dæmdra manna, sem Ísland og Bandaríkin eiga aðild að. Samningurinn kveði á um að upprunaríki þess dæmda, sem og það ríki þar sem viðkomandi hljóti og afpláni dóm, verði að fallast á flutning.

Dómsmálaráðuneytið á Íslandi féllst á flutningsbeiðnina í júní árið 2000 og var tilkynning þess efnis þegar send dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna. Stjórnvöld í Virginíuríki höfnuðu beiðninni hins vegar árið eftir.

Þá segir í svarinu, að íslensk stjórnvöld hafi ítrekað freistað þess að hreyfa við málinu á nýjan leik í samráði við foreldra fangans, sem eru búsettir í Virginíu. Haustið 2002 áttu fulltrúar sendiráðs Íslands í Washington meðal annars fund með starfsmannastjóra Johns Warners, öldungadeildarþingmanns frá Virginíu, og sendiráðið hefur í tvígang, árin 2003 og 2004, skrifað erindisbréf til stjórnvalda í Virginíu þar sem beiðni um flutning hefur verið ítrekuð. Báðum bréfum var svarað neitandi. Sendiráðið hefur enn fremur átt margvíslega fundi með fulltrúum fangelsisyfirvalda í Virginíu og dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna. Hið síðarnefnda hafnaði síðast framsalsbeiðni íslenskra stjórnvalda þann 15. maí á síðasta ári.

Utanríkisráðherra segir, að einkum séu þrjár ástæður fyrir þessari afstöðu stjórnvalda í Virginíu. Í fyrsta lagi hafi Virginíuríki, samkvæmt Samningi um flutning dæmdra manna, skýlausan rétt til þess að fallast á eða hafna beiðni um fangaflutning. Í öðru lagi sé Virginía meðal þeirra ríkja Bandaríkjanna þar sem refsidómar séu hvað harðastir, auk þess sem ekki sé gefinn kostur á skilorði. Í þriðja lagi sé það mat skrifstofu saksóknara í því umdæmi þar sem fanginn braut af sér, að eðli og alvarleiki afbrotsins hafi verið með þeim hætti að ekki sé unnt að fallast á flutning.

Fram kemur síðan, að úrræði íslenskra stjórnvalda séu því ekki ýkja mörg. Í samráði við ættingja hins dæmda verði þess þó áfram freistað, að fá fangann fluttan til afplánunar á Íslandi en í ljósi forsögunnar sé tæpast tilefni til bjartsýni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert