Fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í sérnefnd um stjórnarskrármál á Alþingi hafa sammælst um að hætta umfjöllun um frumvarp formanna stjórnarflokkanna um auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Í bókun nefndarmeirihlutans er því beint til stjórnarskrárnefndar, að hún taki auðlindamál sérstaklega til umfjöllunar.
Birgir Ármannsson, formaður sérnefndarinnar, sagði við fréttamenn að loknum nefndarfundi nú á sjöunda tímanum, að ástæðan fyrir þessari niðurstöðu væri sú, að svo ólík sjónarmið bæði sérfræðinga og stjórnmálamanna hefðu komið fram um auðlindaákvæði í stjórnarskrá, að ekki vinnist tími til að ná niðurstöðu fyrir þinglok.
Stjórnarandstaðan var ósammála þessari niðurstöðu. Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að ekki hefði verið fullreynt hvort samstaða næðist um orðalag stjórnarskrárákvæðis um auðlindir. Sagði Össur að stjórnarandstaðan vildi fá þjóðareign inn í stjórnarskrá en efnisleg umræða hefði ekki farið fram um það í nefndinni. Sagði Össur, að þessi niðurstaða væri hin mesta sneypuför fyrir Framsóknarflokkinn en sigur fyrir Sjálfstæðisflokk.