Iðnþing telur eðlilegt að stjórnvöld setji reglur og ramma um nýtingu auðlinda en fyrirtæki í einkaeigu nýti en greiði fyrir. Auðlindagjald eigi að renna í sjóð, m.a. til eflingar rannsókna og nýsköpunar í atvinnulífinu.
Í ályktun Iðnþings, sem haldið var í dag, segir að skapa verði sátt um skynsamlega nýtingu náttúruauðlinda og ná jafnvægi milli verndar og nýtingar. Of langt sé að bíða til ársins 2010 eftir nýtingar- og verndaráætlun, eyða þurfi óvissu sem nú ríki bæði um verndun landsvæða og stöðu þeirra, sem hyggi á nýtingu auðlinda. Þær beri m.a. að nýta til þess að skapa störf og útflutningsverðmæti en gæta verði sanngirni gagnvart fyrirtækjum sem þegar eru starfandi.
Þá krefjast Samtök iðnaðarins þess, að Alþingi sem kjörið verður í vor og næsta ríkisstjórn, taki aðild Íslands að Evrópusambandinu til alvarlegrar skoðunar og komist að niðurstöðu á kjörtímabilinu. Ná þurfi sem víðtækastri samstöðu meðal stjórnmálaflokka, samtaka atvinnurekenda og launþega um stefnu þjóðarinnar í Evrópumálum.