44% landsmanna eru hlynnt stækkun álversins í Straumsvík. Þetta er niðurstaða skoðanakönnunar sem Gallup gerði fyrir fréttastofur Ríkisútvarpsins og Morgunblaðið. Skoðanakönnunin var gerð á meðal 1.820 manna á aldrinum 18 til 75 ára, svarhlutfall var 61%. Þetta segir á fréttavef RÚV.
Íbúar Hafnarfjarðar kjósa um stækkun álversins í Straumsvík í lok þessa mánaðar en skoðanakönnunin var hins vegar gerð um land allt. Niðurstöður hennar eru þær að meira en 44% eru fylgjandi stækkuninni. 39% eru andvíg stækkun og 17% eru hvorki hlynnt né andvíg henni. 93% aðspurðra tóku afstöðu, 6% kváðust óákveðin og 1,5% neitaði að svara.
Talsverður munur er á svörum karla og kvenna. 52% karla eru hlynnt stækkuninni en 34% á móti. 48% kvenna eru hins vegar andvígar stækkuninni en 36% fylgjandi. Stuðningur við stækkunina eykst eftir aldri, 48% fólks á aldrinum 25 til 34 ára er á móti stækkuninni en um helmingur aðspurðra 35 ára og eldri eru henni fylgjandi.
Meirihluti kjósenda Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks vilja stækkunina en andstaðan er mest á meðal kjósenda vinstri grænna. 43% kjósenda Samfylkingarinnar eru andvíg stækkuninni en 38% fylgjandi.