Rúmlega 35% kjósenda Sjálfstæðisflokks vilja samstarf við VG

Steingrímur J. Sigfússon formaður VG.
Steingrímur J. Sigfússon formaður VG. mbl.is/Golli

Tveggja flokka ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs (VG) er það stjórnarmynstur sem flestir landsmenn vilja fá eftir næstu alþingiskosningar ef marka má nýja skoðanakönnun sem Capacent Gallup vann fyrir Morgunblaðið og RÚV. Flestir, eða 61,3%, vildu aftur á móti að Sjálfstæðisflokkurinn sæti í ríkisstjórn.

Í könnun Gallup var spurt hvaða flokkar, tveir eða fleiri, fólk vildi að mynduðu ríkisstjórn á næsta kjörtímabili. Stærsti hópurinn, 28,1%, vill helst að Samfylking og VG myndaði ríkisstjórn saman, tæplega 4% fleiri en vilja að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur haldi samstarfi sínu áfram. Athygli vekur að nær einungis voru nefnd stjórnarmynstur tveggja flokka en 2,2% aðspurðra vildu að Frjálslyndi flokkurinn, Samfylking og VG færu saman í ríkisstjórn.

Áhugi á samstarfi meðal kjósenda Sjálfstæðisflokks og VG

Að sama skapi virðist töluvert meiri vilji meðal kjósenda Sjálfstæðisflokksins að flokkurinn starfi með VG en Samfylkingunni. Sérstaka athygli vekur hins vegar að ekki munar miklu á fylgi kjósenda Sjálfstæðisflokksins við áframhaldandi samstarf við Framsóknarflokkinn og ríkisstjórnarsamstarfi við VG. Þannig nefndu 42,6% þeirra að halda ætti áfram samstarfi við Framsókn en 35,4% að taka ætti upp samstarf við VG. Að þessu leyti er áberandi hve mikill munur er á fylgi kjósenda stjórnarflokkanna við áframhaldandi stjórnarsamstarf. Mun hærra hlutfall þeirra sem ætla að kjósa Framsóknarflokkinn vill áframhaldandi samstarf með Sjálfstæðisflokknum en öfugt.

Sá flokkur sem oftast var nefndur sem ríkisstjórnarflokkur var Sjálfstæðisflokkurinn en 61,3% aðspurðra töldu að flokkurinn ætti að sitja áfram í næstu ríkisstjórn. Litlu færri, eða 59,5%, töldu að VG ætti að eiga sæti í ríkisstjórn eftir kosningar. Samstarf þessara flokka, hvors sínum megin á hinum hefðbundna hægri-vinstri ás stjórnmálanna, var nefnt sem ákjósanlegasta stjórnarmynstrið af 22,4% þátttakenda, litlu færri en vildu áframhaldandi samstarf Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.

Nánar er fjallað um niðurstöður könnunarinnar í Morgunblaðinu í dag.

mbl.is/KG
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert